22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Frv. þetta er gert sem tilraun til nýsköpunar á sviði framfærslulaganna. Það er spor í áttina að einu framfærsluhéraði og þetta spor var þegar að nokkru leyti stigið með lögunum frá 1935.

Ég vil aðeins gera nokkrar aths. við ummæli hæstv. forsrh. viðvíkjandi lokaúrskurði út af kærum þeirra styrkþega, sem vísað hefir verið til vinnu. Hæstv. forsrh. taldi það vafasamt, hvort heppilegt væri, að lokaúrskurðurinn væri hjá ráðh. En við því er það að segja, að ef lokaúrskurðurinn væri hjá lögreglustjórunum, þá myndi hinn staðarlegi mismunur framfærslusveitanna skapa mjög mismunandi sjónarmið í dómsúrskurðum. En hinsvegar hefir mér dottið í hug, hvort ekki mætti setja á stofn landsdómendur fyrir land allt, er kveðið gæti upp lokaúrskurði í þeim ágreiningi, er upp kynni að koma milli sveitarstjórna og styrkþega. Með slíku fyrirkomulagi yrði það tryggt, að sami mælikvarði yrði notaður um land allt. Og ég leyfi mér að skjóta því til háttv. deildar, hvort slík tilhögun væri ekki heppileg.