08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson); Það má segja að þær breytingar, sem liggja fyrir frá allsherjarnefnd, séu ekki sérstaklega miklar, hvað viðkemur efni frv., aðrar en þær, sem frsm. dvaldi sérstaklega við, og var um ábyrgð ríkissjóðs á vissum útgjöldum dvalarsveitar. Ég mun því aðallega víkja að þeim atriðum, sem ég tel mesta efnisbreytingu. Sumar breytingarnar tel ég, að gætu verið til bóta, en aðrar tel ég vafasamar, eins og t. d. að fella niður, að framfærslunefndir skuli kosnar með sama hætti og aðrar fastar nefndir, sem sé til eins árs, en ekki eins og hefir verið áður, kosnar fyrir allt kjörtímabilið. Ég tel eðlilegt, að kosning framfærslunefnda fylgi með kosningu annara fastanefnda. Í Reykjavík, þar sem ég þekki til, þykir mér eðlilegt, að slíkt fyrirkomulag sé fyrir hendi, því flokkarnir mundu gjarna vilja fá tækifæri til þess að breyta til, annaðhvort af því að einstakir flokksmenn vilja losna við starfið eða af öðrum orsökum. Vil ég því mæla á móti brtt. allshn.

Aðrar smábreytingar, sem ég tel til bóta, eru t. d. 3. og 4. brtt. 4. brtt. er ekki nema eðlileg skýring, og tel ég rétt að taka upp þá breyt. allshn. og hafa óbreytt orðalag frv. eins og það er nú.

Hvað snertir brtt. við 23. gr. hefi ég áður gert grein fyrir skoðun minni á henni, og hvað snertir brtt. við 21. gr. frv. má segja, að þótt hún sé skýrari með breytingunum, geti alltaf komið fram smáatriði út af því, hvernig eigi að koma fyrir þessum málum, sem um ræðir í 21. gr.

Skal ég nú snúa mér að þeim þrem brtt. meiri hl. n., sem miða að því að fella niður ákvæði, sem gilda um ábyrgð ríkissjóðs á vissum gjöldum dvalarsveitar, sem hún leggur út fyrir menn, sem raunverulega eru á framfæri annars sveitarfélags. Eins og hv. dm. vita, var það áður en nýju framfærslulögin gengu í gildi, að vissan tíma þurfti til þess, að menn yrðu sveitfastir. Dvalarsveitin átti rétt á því að fá greiddan frá framfærslusveitinni að 2/3 hlutum þann kostnað, sem af þurfamönnum leiddi. Reynslan hefir yfirleitt orðið sú, að skuldir hafa hrúgazt upp hjá einstökum sveitarfélögum, sem, þegar til átti að taka, áttu lítið til þess að bæta með dvalarsveitinni, og að lokum voru þessar skuldir þurrkaðar út með lögum um kreppulán sveitar- og bæjarfélaga. Teldi ég það mikla afturför, ef aftur ætti að komast á þann farveg og þá leið skuldasöfnunar, sem áður var í gildi og mikið var til óþurftar fyrir dvalarsveitirnar og líka fyrir framfærslusveitirnar, sem þurfamenn höfðu á framfæri sínu og báru ábyrgð á framfærslukostnaði þeirra að nokkru leyti. Nú hefir verið talið með þessu frv., að menn öðluðust ekki framfærslurétt á dvalarsveit sinni, og gerði ég grein fyrir því við 1. umr. þessa máls og fer ekki að endurtaka það hér. Ég gat þess þá, að mér þætti eðlilegt, að ekki væri hægt að hverfa aftur að sama gamla öngþveitinu eins og áður, og þess vegna væri eðlilegt, að ríkissjóður bæri ábyrgð á slíkum kostnaði. Ég tel það mjög nauðsynlegt. Fyrst og fremst af því, sem ég nefndi áður, að það er mesta vandræðaástand að byrja af nýju þessi leiðinlegu viðskipti einstakra framfærsluhéraða á landinu, og ég tel, að ríkissjóður mundi hafa miklu betri aðstöðu til þess að innheimta frá framfærslusveitinni, það sem henni ber að greiða dvalarsveitinni, heldur en viðkomandi sveitarsjóði. Fyrst og fremst er það, að ríkissjóður hefir mikil viðskipti við sveitar- og bæjarfélög víðsvegar um land, sérstaklega eftir að jöfnunarsjóður sveitanna kom til sögunnar, því nú eiga einstök sveitar- og bæjarfélög rétt til þess að fá úr þeim sjóði. Hinsvegar er það á valdi ríkissjóðs að skuldajafna kröfur fyrir ábyrgð á hendur þeirra sveitarfélaga, sem rétt eiga á því að fá greiðslur úr jöfnunarsjóði. Geri ég ráð fyrir, að oft mætti skuldajafna þá, sem ekki greiða það, sem þeim ber eftir þessu frv., og ríkissjóði væri miklu auðveldara að láta gera upp reikningana heldur en sveitarfélögunum. Tel ég ríkissjóði ekki mikil þyngsli að því að sjá um þessar innheimtur og standa í þessari ábyrgð, en að það mundi innheimtast betur með þessu móti, en jafnvel þótt ríkissjóður þyrfti eitthvað af mörkum að leggja, teldi ég það ekki nema rétt og eðlilegt, því samkvæmt því, sem lagt er til í þessu frv., þá á meginreglan að vera sú, að framfærsluþurfi, sem ýmist af sjálfsdáðum eða fyrir atbeina annars sveitarfélags eða áhrifamanna þar, er fluttur til, þurfi ekki að vera til kostnaðarauka fyrir dvalarsveitina. Það er eðlilegt, að dvalarsveitin hafi einhver ráð til þess að sporna við því, að ýtt sé af höndum annara sveita yfir á þær auknum framfærslukostnaði. Þess vegna álít ég ekki nema réttlátt, að ríkissjóður geti undir vissum kringumstæðum þurft að borga eitthvað af þessari framfærsluaukningu, og er þess mikil þörf vegna þess, hve framfærsluþyngslin eru mikil á sumum sveitarfélögum, og ekki ástæðulaust, að ríkið hlaupi undir bagga með sveitarfélögunum. jafnmiklar byrðar eins og ríkisvaldið hefir lagt á herðar ýmsum sveitarfélögum.

Verð ég því fyrir mitt leyti að mæla mjög eindregið á móti þessari brtt., af því ég tel, að ef hún yrði samþykkt, þá mundi hún raska að verulegu leyti þeim grundvelli, sem liggur fyrir frv. sjálfu eins og það er nú. Ég skal geta þess, að frv. hefir verið rætt í ríkisstjórninni, og er ríkisstjórnin á einu máli um, að það sé ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður taki á sig slíkar ábyrgðir.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. Ég legg til, að ekki séu samþ. þær tillögur, sem framsögumaður ræddi um, að takmarka ábyrgð, sem sveitafélög þyrftu að hafa vegna þurfamanna, sem eru á framfæri dvalarsveitar.