09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

118. mál, framfærslulög

*Magnús Gíslason:

Það verður víst ekki sagt með neinum rétti, að þeir menn, sem setið hafa á Alþ. hin síðari árin, hafi verið sérstaklega feimnir við að taka upp ýmiskonar nýbreytni. Það hafa verið borin fram á þingi á undanförnum árum mörg lagafrv., þar sem tekin hefir verið ný og áður óþekkt stefna, sem síðan hefir verið framkvæmd.

Eitt af þessum l. voru framfærslul., sem voru sett á þinginu 1935. Með þeim var stigið hið stóra spor, að afnema sveitfestitímann, svo það má segja, að með þeim hafi að verulegu leyti verið gerð bylting í þeirri löggjöf, sem gilt hafði um tugi ára um framfærslumál.

Það virðist svo, að eftir 4 ára reynslu hafi hv. þm., sem margir hverjir eru þeir sömu, er settu l., komizt að þeirri niðurstöðu, að hér hafi kannske verið full langt gengið. Því er þetta frv. komið fram, þar sem stigið er til baka frá því, sem ætlað var 1935, þegar löggjöfin var sett.

Allshn. hefir orðið sammála um að fylgja meginhugsun frv. í öllu. Við teljum, að það hafi verið stigið óvarlegt spor 1935, sem nú þurfi að stiga að nokkru leyti til baka. N. hefir því orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ.

Um ýms atriði í þessu frv. var dálítill ágreiningur innan n. En við vorum sammála um að kljúfa ekki n., þar sem við vorum á eitt sáttir um meginatriði frv. Við höfum því borið brtt. fram í félagi, þó þannig, að hver hefir óbundnar hendur um það, hvernig hann greiðir atkv. um þær.

Ég mun ekki minnast hér á aðrar till. en þær, sem ég er fylgjandi.

Ég ætla þá fyrst að minnast á 2. brtt., sem er um það, að b-liður 16. gr. frv. falli niður. Samkvæmt núgildandi l. er kjörtímabil framfærslunefnda jafnlangt og kjörtímabil hreppsnefnda og bæjarstjórna. Þetta var nýmæli í l. 1935. Manni finnst, að það hljóti að hafa legið sterk rök fyrir því, að þetta var sett í löggjöfina. En samkvæmt frv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að slíkar nefndir starfi ekki svo lengi, heldur skuli kjörtímabil framfærslunefnda vera hið sama og annara fastra nefnda, sem bæjarstjórnir eða hreppsnefndir kjósa.

Rök þau, sem færð eru fyrir þessu í frv., eru næsta veigalítil. Þau eru ekki önnur en það, að eðlilegt sé, að kjörtímabil framfærslunefnda sé hið sama og annara fastanefnda, því flokkahlutföll og aðrar aðstæður geta breytzt á svo löngum tíma sem kjörtímabili bæjarstjórna. Ég hélt það hefði legið á bak við, að þetta var sett í l., að með því hafi verið ætlunin að láta pólitík yfirleitt ekki hafa áhrif á það, hvernig framfærslunefndir eru skipaðar á hverjum stað. Og þó allt þurfi að vera pólitík, þá finnst mér, að þurfalingar mættu gjarnan vera undanþegnir því að vera undir pólitískum áhrifum.

Í grg. fyrir frv. 1935 er það beinlínis tekið fram, að þetta sé fyrst og fremst sett til þess að gæta réttar og velferðar styrkþeganna. Ég hygg, að þetta sé mikilsvert og það sé rétt athugað af þeim mönnum, sem undirbjuggu frv. 1935, að það var réttur styrkþeganna, sem fyrst og fremst var þar um að ræða. Það er ekki ómögulegt, að í sambandi við þetta geti hagsmunir bæjarfélaga komið til greina, því til þess að geta framfylgt þessum málum á sanngjarnan hátt, þá þurfa hagsmunir bæjarfélaga og styrkþega að mætast. Þekkingin á því, hvort maður þarf á styrk að halda, getur alveg eins verið hagsmunamál fyrir bæjarfélagið eins og hann sjálfan. Ég hefi fyrir mitt leyti ekki gert þetta að kappsmáli, en mér finnst það samt hlálegt, þegar búið er að færa sterk rök að því, að með þessu sé verið að berjast fyrir hagsmunum styrkþeganna, að eftir 4 ár sé þetta svo orðið einskisvirði, því þá séu pólitískir hagsmunir metnir meira en réttur styrkþeganna.

Ein aðalbreyt. frv. er sú, að í vissum tilfellum er ríkissjóður gerður ábyrgur fyrir vissum greiðslum, að því er snertir viðskipti milli sveitarfélaga. 22. gr. frv. er um það, að ef manni er veittur framfærslustyrkur utan þeirrar sveitar, er hann á framfærslurétt í, þá skuli framfærslusveit hans endurgreiða styrkinn að 2/3 hlutum, nema þar sem öðruvísi er ákveðið í lögum, þó skulu greiðslur eftir yfirvaldsúrskurði endurgreiðast að fullu. Svo kemur viðbótin, að ríkissjóður ábyrgist þessar endurgreiðslur. Þetta er nýmæli, sem aldrei hefir verið í l., að ríkissjóður á þennan máta taki að sér fátækraframfæri í landinu.

Það hefir verið sett sérstök löggjöf um að stofna jöfnunarsjóð, þar sem tekinn er viss hluti af tekjum ríkissjóðs, 700 þús. kr. á ári, sem settar eru í sérstakan sjóð, sem varið er til að jafna fátækraframfærið í landinu. Með því er nokkur hluti af fátækraframfærinu kominn yfir á ríkið. Hér er gengið enn lengra. Með því að taka upp viðskipti milli sveitarfélaga er opnuð leið til þess, að það safnist skuldir hjá einu sveitarfélagi frekar en öðru, og ef þær eru ekki greiddar, þá á ríkissjóður að borga þær. Við skulum segja, að þetta sé beint áframhald af því, sem gert var með því að stofna jöfnunarsjóð, en það, sem er sérstaklega athugavert við þetta, er, að hér er ekki beint ákveðin upphæð, sem talað er um. Enginn veit nú, hvað þetta getur orðið mikið. Mér þykir ekki ótrúlegt, að eftir að l. eru búin að vera í gildi í 2 ár, þá sé þessi upphæð orðin 1/4 millj. Þá er fátækraframfærið, sem lagt er á ríkissjóð, orðið um 1 millj. kr. Þá er spurning, hvort ekki er réttara að gera allt landið að einu framfærsluhéraði heldur en að taka smám saman vissa hluta út úr og bæta þeim á ríkissjóðinn, án þess að maður viti í raun og veru, hvað mikið fé sé um að ræða.

Þetta er ástæðan fyrir að ég og hv. 2. þm. S.-M. höfum borið fram brtt. um að fella síðustu málsgr. 22. gr. niður.

Nú virðist mér, eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. fjmrh., að ríkisstj. standi að þessum l. og það séu engin vandræði fyrir ríkissjóð að standast þær ábyrgðir, sem l. gera ráð fyrir. Ég verð að segja, að eftir að ég hefi fengið slíka yfirlýsingu, þá er mér það ekki fast í hendi að halda þessari brtt. til streitu. Það má vel vera, að þessir menn sjái betur en ég og ekki sé nein hætta á ferðum. En ástæðan til þess, að ég gerði þessa brtt., var sú, að ég óttaðist, að þarna væri um óviss fjárútgjöld að ræða úr ríkissjóði, sem ég vildi ekki láta fara óathugað gegnum þingið.