09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

118. mál, framfærslulög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það hafa fallið hér í hv. d. ummæli hjá 2 hv. ræðumönnum, sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo, að í bæina og þá sérstaklega Rvík safnist fólk annarstaðar að af landinu, sem verður svo strax þurfalingar á bæjunum. Í tilefni af þessu vildi ég biðja þessa hv. þm. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh., sem mun eiga sæti í bæjarráði, að gera þessu betri skil. Ég kann ekki við þessa sleggjudóma, sem slengt er framan í sveitafólkið. Bæjarstjórnin heldur því leyndu, hverjir það eru, sem þiggja sveitarstyrk. Við borgararnir í Rvík, sem borgum útsvörin, fáum ekki að vita, hverjir það eru. Þegar maður fær ekki aðstöðu til að vita hverjir það eru, þá er hægt að koma með svona sleggjudóm. Ég vildi þess vegna mjög ákveðið mælast til þess, að þessir hv. ræðumenn leggi gögnin á borðið og gefi skrá yfir, hverjir eru þurfalingar Rvíkurbæjar og hverjir hafi flutt til Rvíkur á síðustu árum. Ég álít, að við eigum heimtingu á þessu.

Ég hefi tekið 20% af öllum þeim, sem eiga A. B. C. o. s. frv. telja fram til skatts, og aðgætt, hvað margir af þessum mönnum eru nýfluttir í bæinn og hvað margir hafi ekki borgað skatta eða útsvör. Ég hefi fundið, að úr einum hreppi, sem liggur nálægt Rvík, hafa flutzt hingað menn, sem eiga yfir 1. millj. kr. Úr einni sýslu hafa flutzt hingað menn, sem eiga 350 þús. kr. Ég hefi fundið mjög fáa af þeim, sem nýfluttir eru til bæjarins, sem ekki greiða útsvör og skatta. Ég hefi að vísu fundið nokkra, og það má vera, að þeir séu meðal styrkþeganna.

Ég vil þess vegna slá því föstu, meðan ekki er lagt fram, hverjir þiggi fátækrastyrk í Rvík, og það sýnt svart á hvítu, hverjir leggist upp á bæinn af aðfluttum mönnum, að þetta sé sleggjudómur, sem settur er fram að órannsökuðu máli. Þegar skráin hefir verið birt og ég sé á henni, að það sé rétt, að viss sveitarfélög láti þurfalinga sína leggjast upp á bæinn, þá skal ég beygja mig fyrir rökum, en fyrr ekki.

Sú athugun, sem ég hefi gert, og ég varði til þess nokkuð mörgum sunnudögum í sumar, bendir mér á, að þetta er ekki annað en órökstuddur sleggjudómur, sem varpað er yfir á sveitirnar, og á að vera einhver skuggi á þær, enda allhaf framsettur til réttlætingar auknum framfærslukostnaði hér í Reykjavík, en hann stafar af stjórn bæjarstjórnarmeirihlutans á málefnum bæjarins.