09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

118. mál, framfærslulög

Páll Hermannsson:

Mér finnst það ekkert undarlegt, þó bornar séu fram till. til breyt. á framfærslul. Þau eru nú búin að vera í gildi í 4 ár, og þegar þau voru sett, þá var af öllum vitað, sem að þessari löggjöf stóðu, að reynslan myndi leiða í ljós ýms sannindi, sem mönnum voru hulin þegar löggjöfin var sett, en sem yrði þess valdandi, að það þyrfti að breyta l.

Nú hefir komið fram lagafrv. í mörgum gr., 42 gr., til breyt. á framfærslul. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst, að með þeim breyt., sem felast í þessu frv., þá séu furðu litlar breyt. gerðar á framfærslul. Þó frv. sé svona fyrirferðarmikið, þá er margt af þessu smábreyt., sem gerðar eru til að gera ótvíræðari fyrirmæli, sem þegar eru í l. Stundum eru prentaðar upp úr framfærslul. heilar gr., kannske með einni smáúrfellingu. Þetta verður til þess, að frv. sýnist fljótt á litið fyrirferðarmeira en það er í raun og veru.

Ég get þess fyrir sjálfan mig, að ég verð að telja erfitt að átta sig fullkomlega á svona frv., vegna þess að það er ekki hægt nema að lesa lagafrv. saman við framfærslul. og bera svo þetta hvorttveggja saman við brtt. Ég ætla, að hv. þm. þurfi að hafa fulla aðgæzlu til þess að misskilja ekki lagafrv. sjálft eða þær brtt., sem gerðar hafa verið við það.

Mér skilst, að höfuðbreyt. séu fjórar. Fyrsta aðalbreyt. er í 6. gr. frv., en hún fjallar um að torvelda aðseturstað þeirra manna, sem þurfa að flytja á nýja staði. Þetta sama reyna framfærslul. að gera, en ég býst við, að reynslan hafi sýnt, að þær skorður, sem framfærslul. vilja reisa við þessu, hafi ekki reynzt nægilegar. Í þessari gr. er tekinn upp á ný viss sveitfestitími fyrir þá menn, sem þegar eru orðnir þurfandi. Af henni leiðir, að búast má við því framvegis, að þurfandi menn dvelji í öðrum framfærsluhéruðum en þeim, sem í raun og veru eiga að framfæra þá. Af þessu ætti því að geta leitt, að það geti þurft að taka upp á ný hina svokölluðu þurfamannaflutninga, eins og var í eldri l. Í eldri l. voru sérstök ákvæði um það, hvernig þurfamannaflutningar ættu að fara fram, þegar ein fjölskylda fluttist af einu landshorni á annað. Ég hefi ekki séð í þessu frv. nein ákvæði um þetta. Það hlýtur að verða sjálfsagður hlutur, að þegar heilar fjölskyldur eiga að fara að verða á stöðugu framfæri, t. d. í Rvík, þá hljóta fátæk og lítil sveitarfélög úti á landi, sem ekki hafa ráð á að framfæra þessar fjölskyldur í dýrum bæ, eins og Rvík er, að reyna að fá þær til sín, ef þær eiga að framfæra þær. Og þá kemur upp gamli þurfamannaflutningurinn.

Ég vildi því beina því til hv. n., hvort hún vilji ekki athuga þetta fyrir 3. umr.

2. aðalbreyt. eru í 21. gr. frv. Það eru ákvæði um, hvernig megi halda þurfamönnum til vinnu. Það má vera, að fyrirmælin í framfærslul. um þetta séu full lin til þess að koma mönnum til vinnu. Ég álít nú, að það sé spurning um það, hvort þau séu of lin til þess að koma mönnum í vinnu. En aftast í gr. eru ný atriði, sem ekki eru í framfærslul., að það megi láta þessa menn, í stað þess að vinna, reka atvinnu. Ég verð að telja, að það atriði sé nauðsynlegt. Það getur staðið svo á um fjölskyldur, að það geti komið sér betur, að þær reki sjálfar atvinnu, t. d. búskap eða geri út smábát. Það er því eðlilegt, að þessi fyrirmæli séu fyrir hendi.

Í þriðja lagi eru í nokkrum gr. frv. ákvæði um, að ríkissjóður skuli bera ábyrgð á endurgreiðslu á þurfamannaframfæri dvalarsveitar, þannig að hún geti átt aðgang að ríkissjóði um endurgreiðslu í stað þess að ganga að framfærslusveitinni. Ég geng út frá því, að þetta ákvæði geti orðið nauðsynlegt. Fyrst á að tryggja sveitarfélögin fyrir því, að menn setjist þar að, aðeins til þess að verða þar þurfandi, þá er það gagnslaust, ef sveitarfélögin hafa ekki möguleika til þess að fá greiðslu frá þeirri sveit, sem á að sjá fyrir viðkomandi þurfamanni. Ég er sannfærður um, að þetta ákvæði er nauðsynlegt, á meðan ekki eru til nein fyrirmæli um flutninga á fjölskyldum burt úr dvalarsveitum þeirra. Ég sé, að ákvæði eru í frv. um eftirlit með flestu, nema 21. gr., sem fjallar um, að menn séu skyldugir til að fara þangað sem þeim er útveguð vinna eða þeim gert mögulegt að stunda eða reka atvinnu sjálfir.

Í fjórða lagi er svo í 38. gr. frv. dálítil breyt. um jöfnunarákvæði. Hlutur Reykjavíkur var gerður þyngstur við fjárgreiðslur úr jöfnunarsjóði í framfærslul., með tilliti til þess, að litið var svo á, að Reykjavík hlyti alltaf að verða bezt stæða bæjar- eða sveitarfélag landsins, af ástæðum, sem ég ætla alls ekki að fara að rekja hér; ég held, að þær ástæður séu fyrir hendi enn. En hins vegar er það alveg rétt, að fólk safnast æ meira og meira til Reykjavíkur. Og þó að Rvík hafi ýms skilyrði betri heldur en aðrir staðir, þá er það nú að verða augljóst, að Reykjavík hefir ekki nægileg atvinnuskilyrði fyrir allt það fólk, sem þar dvelur og þangað flyzt — eða ekki eins og stendur.

Ég er nú alveg sammála hv. 1. þm. N.-M. (PZ) um það, að það er ekki einungis löngunin til þess að komast hér á sveitarframfæri og hverfa hér í fjölmennið, sem dregur menn hingað. Menn vita, að gert hefir verið og gert verður fjölda margt í Reykjavík, sem gerir þann stað álitlegri, a. m. k. í augum manna, heldur en flesta aðra staði á landinu. Hins vegar verð ég að telja, að það sé líka rétt að fella niður það ákvæði framfærslul., sem þrengir nokkuð í þessu efni að kosti Reykjavíkur. En ég vil þá jafnframt í sambandi við það benda á, hvort ekki væri þess jafnframt þörf að endurskoða regluna, sem fátækraframfærið og jöfnunaraðferðin byggist á. Þessi regla er sem sé sett í 72. gr. framfærslul., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir skýrslum þeim, sem um getur í 70. gr., reiknar atvinnumálaráðuneytið út, hver er meðaltalsframfærslukostnaður í hvorum jöfnunarflokknum fyrir sig. Skal það gert á þann hátt, að miða að 1/3 hluta við tölu þeirra karla og kvenna, sem eru á aldrinum 18–60 ára, að 1/3 hluta við skattskyldar tekjur, að 3% hluta við skuldlausar eignir og 1/6 hluta við fasteignamat“.

Þetta er nú leiðin, sem þar var fundin upp, og mér finnst nú það vera vafasamt, að þessir faktorar séu rétt notaðir. Ég vil til athugunar benda á það, hvort það muni vera réttmætt að miða að 1/3 hluta við tölu fólks á aldrinum 18–60 ára, en ekki nema að 1/6 hluta við skuldlausa eign. Ég veit náttúrlega, að vinnufært fólk er þýðingarmikill liður í hverju sveitarfélagi, en það er það því aðeins í þessu tilliti, að það hafi lífvænlega atvinnu. Aftur á móti er skuldlaus eign mjög þýðingarmikill liður alstaðar. Ég bendi á þetta svona til athugunar, ef hv. n. vildi virða þetta fyrir sér fyrir 3. umr.