29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Út af því, sem hæstv. viðskmrh. var að tala um í sambandi við framfærslulögin, þá vil ég taka það fram, að meiri hl. ríkisstj. lagði á það nokkra áherzlu, að þau ákvæði, sem hann minntist sérstaklega á, væru látin haldast, og ég fyrir mitt leyti er þessu eindregið fylgjandi, því ég tel, að það myndi fara út í sama öngþveitið og var, ef tekið yrði upp hið gamla fyrirkomulag á þessum viðskiptum milli sveitarfélaga. Ég álít, að það myndi verða afar erfitt um vik fyrir sveitarfélögin að innheimta skuldir hjá öðrum sveitarfélögum af þessu tagi, sem hér um ræðir, en aftur hægara fyrir ríkið að fást við slíkar innheimtur.

En út af fyrirspurn hv. viðskmrh. um það, hvaða líkur væru til þess, að fullkomin fátækrajöfnun færi fram úr þeirri upphæð, sem jöfnunarsjóði er nú ætluð með l., þó að frá séu

dregnar þær 100 þús. kr., sem ætlaðar eru til að kaupa einstökum sveitum skuldaskil, get ég tekið það fram, að ég tel ekki hætt við, að hún fari fram úr þeim 700 þús. kr., sem renna eiga til jöfnunarsjóðs samkvæmt l. Við síðustu jöfnun voru 200 þús. kr. til skipta milli einstakra sveitar- og bæjarfélaga, og þó að 100 þús. kr. séu teknar frá, er ekki hætt við, að ríkissjóður þurfi að greiða aukreitis til jöfnunarsjóðs samkvæmt þessum ákvæðum, ef ekki kemur eitthvað óvænt fyrir. Ég tel því, að ekki ætti að þurfa að verða breyting á frv. hvað þetta snertir, en það mætti athuga á næsta þingi, hvort rétt væri að breyta fátækralöggjöfinni til samræmis við þetta. En á næsta ári þarf ekki að óttast, að sú úthlutun, sem þá fer fram, muni fara fram úr þeirri upphæð, sem í sjóðinn á að renna samkvæmt l.