03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Mér þykir rétt, út af ræðu hv. þm. Borgf. í sambandi við brtt., sem fyrir liggur, að minnast á þetta mál nokkrum orðum.

Ég skal geta þess, að brtt. á þskj. 675, sem flutt er af allshn., er að mínu áliti til bóta, og vildi ég mæla með því, að hún yrði samþ., því ég tel, að það mundi verða nauðsynleg ráðstöfun til aðhalds að sveitarfélögum, að ef þau hafa ekki orðið við því að svara innan 6 mánaða kröfum, sem að þeim er beint frá öðrum sveitafélögum, þá falli niður réttur framfærslusveitarinnar til þess að mótmæla réttmæti skuldarinnar. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þá brtt. fleiri orðum. — Hv. þm. Borgf. hélt því fram, að í frv., sem hér liggur fyrir, mundi vera hallað að einhverju leyti á rétt fátækra sveitahreppa, og að þeir hlutar af sveitarfélögum landsins mundu ekki hafa átt fulltrúa til þess að gæta hagsmuna þeirra í undirbúningi málsins. Ég ætla nú, að með breyt. þessum sé ekki gerð tilraun til þess að halla á neitt sérstakt framfærsluhérað, hvorki í sveit eða kaupstað, og vil upplýsa það, að sveitahrepparnir áttu málsvara í undirbúningi málsins, sem var einn af oddvitunum á Suðurlandi, sem vel þekkir til um sveitastjórn

í sínu héraði. Ég sé heldur ekki, þegar betur er að gáð, neitt það, sem sýni, að gengið sé á rétt sveitanna, ekkert sem sýni það, að gætt sé hagsmuna bæjanna á sveitanna kostnað. (Viðskmrh.: Það er allt á kostnað ríkissjóðs). Viðskmrh. skaut því hér inn í, að helzt væri hallað á ríkissjóðinn, en ég held, að í þessu máll sé ekki hallað á ríkissjóðinn, heldur er verið að gera ráðstafanir til þess, að ríkissjóður í vissum tilfellum standi ábyrgur fyrir útistandandi skuldum milli sveitarfélaga, og er það hvorki óeðlilegt né óréttlátt. Því það hefir farið svo í framkvæmdinni, að þótt ríkissjóður hafi ekki staðið sérstaklega ábyrgur fyrir framfærslukostnaðinum, hefir hann orðið að hlaupa undir bagga, vegna þess að sveitafélögunum hefir verið um megn að rísa undir þeim byrðum, sem framfærsluþyngslin hafa lagt þeim á herðar.

Út af brtt. á þskj. 650 vil ég sérstaklega segja þetta, þótt ekki hafi verið gerð grein fyrir henni af flm., en ég tel ekki þörf á að bíða eftir því, þar sem þetta atriði hefir verið dregið sérstaklega inn í umr. af hæstv. viðskmrh. Það er sem sé ábyrgð ríkissjóðs fyrir því, að ætið sé til hjá jöfnunarsjóði nægilegt fé til fullkominnar skuldajöfnunar. Ég vænti þess, að eftir reynslu undangenginna ára sé ekki ástæða til að óttast, að ríkissjóði væru með þessu bundnir sérstakir baggar, en jöfnunarsjóður er nauðsynlegur til þess að standa undir þessum kostnaði, jafnvel þótt tekið sé af sjóðnum óskiptum 100 þúsund krónur til kaupa af skuldaskilum einstakra sveita. Ég vil taka fram, að ég tel ekki, að ríkissjóði stafi nein hætta af þessu frv.

Út af brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 655 vil ég taka það fram hvað snertir fyrri brtt., sem er um það að fella niður ábyrgð ríkissjóðs á framfærslukostnaði dvalarsveitar á hendur framfærslusveit, að mér finnst eðlilegt, þegar tekið er upp í þessu frv. með vissum takmörkunum ákvæði um, að menn öðlist ekki tafarlaust framfærsluréttindi í þeirri sveit, sem þeir flytja til, að þá sæki ekki aftur í það sama form, sem áður er þekkt, að framfærslusveit vildi ekki eða gæti ekki innt af hendi greiðslur sínar til dvalarsveitar. Ég vísa til þess, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls, um að ríkissjóður hefði meiri tök á að ná inn framfærsluskuldum hjá framfærslusveit en dvalarsveitin sjálf. Á því er margföld reynsla, og mætti styðja það með fullkomnum rökum, ef ástæða væri til, en í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, að það væri næsta óeðlilegt, að dvalarsveitin gæti staðið straum af, þó ekki væri nema 2/3 af framfærslu þeirra manna, sem þannig er ráðstafað úr annari sveit, vil ég vísa til þess, að eftir núgildandi lögum er það svo í mörgum tilfellum, að dvalarsveitin verður að standa straum af þeim kostnaði öllum, svo ég ætla, að dvalarsveit verði ekki lögð þyngri byrði á herðar með þessu ákvæði en áður var. Ég hefi við 2. umr. þessa máls gert grein fyrir réttmæti þessa ákvæðis og sé ekki ástæðu til að fara út í það hér.

2. brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 655. er um það, hvort hér eigi að vera byggðarleyfi eða byggðarbann. Um þá brtt. vil ég segja það almennt, að mér virðist hún raunverulega ganga í þveröfuga átt við þau ákvæði, sem eru í 21. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að framfærslusveitin geti gert þær ráðstafanir til þess að létta af sér framfærsluþyngslunum, að vísa mönnum til vinnu, þótt utan heimasveitar sé. Hygg ég, að það mundi vera öruggt fyrir sveitirnar — ég á við bæina jafnt og sveitahreppana —- ég held að það yrði öruggt að gera þær ráðstafanir, sem bent er á í 21. gr. frv., að vísa mönnum á vinnu utan sinnar eigin heimilissveitar. Að þessu leyti virðist mér kenna mótsagnar milli ákvæðisins um byggðarbann og þess, að koma atvinnulausum mönnum eða framfærsluþurfandi í vinnu utan sinnar sveitar.

Í annan stað vil ég benda á það, að ég álít það út af fyrir sig mikið spor aftur á bak, að loka þannig einstökum héruðum fyrir aðkomu fólki, og mundi ekki leiða til neins góðs. Fyrir ekki alllöngu var hátíðlegt haldið í Danmörku afnám byggðarbannsins, er þótti hin mesta réttarbót. Á sama tíma sem í Kaupmannahöfn standa hátíðahöld til minja um þessa réttarbót, ætla einhverjir af fulltrúum Alþingis að innleiða þennan gamla sið á Íslandi.

Með ákvæðinu, sem fyrir liggur í frv., er verið að veita ríkari heimild en áður var fyrir sveitarafélögin til þess að hafa umsjá eða eftirlit með mönnum, sem hafa orðið að þiggja af sveit. Þetta finnst mér ekki óeðlilegt.

Sveitarfélög hafa yfirleitt meira vald yfir þeim mönnum, sem alveg hafa gefizt upp og leita á þeirra náðir, heldur en hinum, sem leita á aðra staði til þess að leita sér vinnu. Mér virðist vera farið aftan að hlutunum, ef það á að hafa að engu þessa sjálfsbjargarviðleitni manna til þess að leita sér atvinnu, þar sem þeim lýst bezt til fanga.

Fyrir þessara hluta og margra annara hluta sakir get ég ekki hugsað mér framkvæmd byggðarbanns á Íslandi. Ég álít það spor aftur á bak og óeðlilegar þvingunarráðstafanir, og í annan stað mundu þessar ráðstafanir í flestum tilfellum ekki koma að neinu gagni og mundu vinna á móti þeim ráðstöfunum, sem hægt væri að gera til þess, að menn flytji frá einum stað á annan til þess að leita sér atvinnu. Hv. þm. Borgf. benti réttilega á það, að í sumum sveitum eða bæjum væri svo háttað, að örðugt væri með atvinnu, og óeðlilegt, að þangað safnaðist fjöldi fólks. Í öðrum byggðarlögum eru atvinnuskilyrði betri, og er einmitt hætt við því, og býst ég við, að svo yrði, að þau byggðarlög, sem hafa betri afkomuskilyrði, mundu verða hin fyrstu til þess að óska eftir byggðarlokun hjá sér, og þá er í raun og veru verið að fyrirbyggja möguleika vissra manna til þess að sjá fyrir sér og sínum á þessum stað, sem gæti gefið möguleika til sjálfsbjargar. Fyrir þetta og margt annað legg ég mjög eindregið á móti því, að þessi till. hv. þm. Borgf. verði samþ.