03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

118. mál, framfærslulög

Jón Pálmason:

Eins og hv. þm. hafa sjálfsagt veitt athygli, hefi ég leyft mér ásamt hv. þm. A.-Sk. að bera fram brtt. á þskj. 650. Hæstv. félmrh. og hv. þm. Borgf. hafa þegar minnzt nokkuð á þessa tillögu (Atvmrh.: Ekki nærri nóg.), en hún felur það í sér að afnema þá ríkisábyrgð, sem hér hefir verið sett í þetta frv., ríkisábyrgð fyrir því, að lögjafna framfærsluskuldir sveitahéraðanna, og stefnir þessi ábyrgð í þá átt, að gera landið allt að einu framfærsluhéraði. Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni, að samkvæmt þeirri reynslu, sem fengin væri á undanförnum árum, stafaði ekki af þessu mikil hætta fyrir ríkissjóðinn, vegna þess að tekjur jöfnunarsjóðs mundu hrökkva nokkuð fyrir þeim gjöldum. Ef svo væri, mundi ekki vera ástæða til að breyta þessum lögum, en ég vil telja, að hættan, sem í því felst að gera þessa ábyrgð að lögum, sé mjög alvarleg. Hún líka lamar hvöt sveitahéraðanna til þess að halda fátækraframfærinn niðri eins og vera ber. Við höfum glögg dæmi um þetta. Á skýrslum héðan úr Reykjavík er gefið upp, að mjög örðugt sé að standa á móti sívaxandi fátækraframfæri, en þetta er einmitt smækkuð mynd af því, hvernig verða mundi, ef þetta yrði útfært í stórum stíl. Verð ég að telja, að í þessu efni sé nauðsynlegt að fara mjög varlega.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. félmrh. var að tala um, að hér væri um einhverjar deilur að ræða milli sveita og kaupstaða, vil ég segja, að ég álít ekki, að þetta geti verið deilumál. Þetta atriði er þannig, að það, sem er til hagsmuna fyrir eitt sveitarfélag þetta árið, getur verið til tjóns fyrir það næsta ár.

Ég skal geta þess, að við flm. þessarar till. höfum komizt að þeirri niðurstöðu, að heppilegra sé að orða hana á annan veg, til þess að ekki sé um að villast, hvað við eigum við. Ég orðaði hana eins og hún liggur fyrir, að efnisgr. falli niður. Okkur hefir því komið saman um að leggja fram skrifl. brtt. Tillagan er þannig orðuð: (sjá þskj. 708.) Þá er skýrt, hvernig á að fara að, ef fé jöfnunarsjóðs hrekkur ekki til.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, enda sýnist mér á öllu, að ekki þýði mjög miklar umræður eins og komið er.