03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

118. mál, framfærslulög

*Pétur Ottesen:

Ég skal nú ekki raska næturró hv. þm. mikið meira en orðið er. Aðeins vildi ég segja nokkur orð út af ræðu hæstv. félmrh., sem tók eins dauflega í mínar brtt. eins og hann frekast gat, þar sem hann andmælti þeim báðum svo kröftuglega eins og hægt er að gera kröfur til hans svona að næturlagi. En út af því, sem hann sagði um gagnrýni mína á 22. gr., um það, að sveitarfélögin hefðu orðið að leggja mikið út vegna þurfalinga, sem dvalið hafa hjá þeim og annarstaðar hafa átt framfærslusveit, þá vil ég segja það, að þessu er ekki hægt að mótmæla. Þó hafa þau vitanlega átt kröfurétt á sveitarfélögin, sem framfærsluskyldan hvíldi á. En eftir þessum nýju ákvæðum hafa dvalarsveitirnar ekki undir neinum kringumstæðum kröfu á nema 2/3 af framfærslukostnaði þurfamanns. Og þetta er vitanlega allveruleg breyt. frá því, sem verið hefir, einkum þegar það er athugað, að þarna er opnuð töluvert auðveldari leið fyrir efnameiri sveitarfélög og þau, sem bolmagnið

hafa meira til að koma þurfalingunum inn í önnur sveitarfélög með þeim árangri, að þau geta á tvennan hátt látið þau framfæra fyrir sig, fyrst og fremst með því að reyna að flytja þurfalingana á ódýrari staði og svo með því að láta dvalarsveitina undir öllum kringumstæðum taka á sig 1/3 af öllum framfærslukostnaðinum.

Ég verð að segja, að andmæli hæstv. ráðh. gegn brtt. minni við 31. gr. voru harla léttvæg, því að hann gerði ekki minnstu tilraun til að hrekja það, að með því að leggja þessar kvaðir á sveitarfélögin gæti svo farið, að þeim yrði ómögulegt að standast þann kostnað, sem af þessu leiddi, upp á það að fá ekki endurgreiðslu fyrr en eftir dúk og disk.

En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um byggðarleyfið, þá skal ég vera stuttorður. Úr því að honum þykir ánægjulegra að þurfa að beita þessum ráðstöfunarrétti til að dreifa fólkinu en að beita honum til að koma í veg fyrir þessa þjóðarógæfu, þá hann um það. Ég álit þetta hinsvegar einkennilegan hugsanagang hjá hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. talaði um, að þetta byggðarbann gæti valdið árekstrum. Ég sé ekki að þetta geti valdið neinum árekstrum, þar sem ekki er nein hætta á, að fólk verði flutt á þá staði, sem atvinnulitið er fyrir, heldur mun frekar verða borið niður þar, sem nóg atvinna er. Þetta ætti því ekki að valda neinum erfiðleikum.

Hæstv. ráðh. minntist eitthvað á hátíðahöld út í Danmörku. Það getur vel verið, að það valdi honum ánægju, að þeir haldi hátíð út í Danmörku, og það er líklegt, að þegar hann er að ræða þetta mál hér, þá sé hann eins mikið með hugann við þau hátíðahöld eins og við málið, eins og aðstaða hans getur bent til. En ég verð að segja, að mér finnst að það ástand, sem skapazt hefir hér á landi hin síðari ár, gefi ekki tilefni til mikilla hátíðahalda.