04.01.1940
Efri deild: 104. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

118. mál, framfærslulög

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. er hingað komið vegna breyt., sem gerðar voru á því í 1d. Breyt. eru aðallega tvær. Sú fyrri er við 24. gr. frv. Er þar bætt við nýrri málsgr., sem ákveður, að þeim kröfum, sem dvalarsveit hefir á hendur framfærsluveit, skuli vera svarað innan 6 vikna frá því, að þær bárust framfærslusveit í hendur, en verði þeim ekki svarað, skuli álíta, að þær séu samþ. Þetta er að mínu viti til mikilla bóta, því að það getur orðið árekstur út af slíkum kröfum, þannig að ef framfærslusveit trassar að svara kröfunum, þá er litið svo á, að hún hafi samþ. þær, ef hún hefir ekki svarað eftir þennan ákveðna tíma.

Hin brtt. er við 31. gr. og er í því fólgin, að 2. málsgr. gr. er felld niður, en sú málsgr. var um það, að dvalarsveit væri skyld að veita innflytjanda nauðsynlegan styrk, ef hann óskaði þess heldur. Þessi gr. var felld niður. Þessa breyt. álít ég til mikilla bóta, sérstaklega vegna þess, að í henni stóð, að ríkissjóður bæri ábyrgð á endurgreiðslu styrksins til dvalarsveitar. Ég hefi ekki átt þess kost að bera mig saman við hv. samnm. mína, en ég geri ráð fyrir, að þeir geti fallizt á þessar breyt.

3. brtt. er til bráðabirgða og er aðeins orðabreyt.

Að því leyti sem mér er málið kunnugt, þá geri ég ekki ráð fyrir, að allshn. leggi á móti frv.