23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Þetta mál var tekið af dagskrá í gær, til þess að ég gæti aflað mér upplýsinga hjá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, hvort hún sæi annmarka á því, að brtt. hv. þm. S.-Þ. væri samþ. Að vísu hefi ég ekki getað fengið upplýsingar frá verksmiðjustj. sem heild, en ég hefi átt tal við nokkra af stjórnarmeðlimunum og fengið þær upplýsingar, sem ég tel fullnægjandi.

Í verksmiðjunni á Raufarhöfn vinna nú 37 manns og í hinni fyrirhuguðu verksmiðju munu vinna 77 manns; en afleiðingin af þeirri breyttu tilhögun er sú, að þá þurfa ekki nema 26 manns að vinna í gömlu verksmiðjunni, svo að raunveruleg fjölgun verður 66 manns.

Nú hygg ég, að ekki muni óhætt að ganga inn á, að ¾ hlutar af fjölguninni yrðu námsmenn, eins og till. hv. þm. S.-Þ. gerir ráð fyrir, því að sumir þessara manna eru fagmenn eða vinna störf, sem ekki eru ætlandi ungum námsmönnum, svo sem verksmiðjustjóri, efnafræðingur, verkstjóri, kyndari, aðstoðarmaður við vélar, pressumenn, kvarnamenn, smiðir. Ennfremur lýsismenn, mjölmenn, þróarmenn, útimenn og birgðaverðir, eða samtals 48 menn. Ég hygg, að óhætt myndi að hafa 33 námsmenn af þessum 48, eða sem nemur helmingi aukningarinnar.

Vildi ég því leggja til, að brtt. bv. þm. S.-Þ. yrði samþ. með smávægilegri breyt. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa meginmál brtt., svo hljóðandi: „Þegar komin er í framkvæmd stækkun sú á síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn, sem lög þessi heimila, skal verksmiðjustjórnin láta efnalitla, duglega nemendur úr lærdómsdeildum menntaskólanna og háskólanum sitja fyrir um allt að ¾ hlutum þeirrar aukningar á almennri vinnu í verksmiðjunni, er af stækkun hennar leiðir.“ Legg ég til, að fyrir „¾ hl. þeirrar aukningar á almennri vinnu í verksmiðjunum“ komi: ½ af vinnu í verksmiðjunni, því að það gæti auðveldlega orðið að þrætuepli milli verksmiðjustj. og verkalýðsfélaganna, hvað teldist almenn vinna. Fyrirspurn hv. 2. þm. N.-M. í gær er þar með svarað. En út af fyrirspurn hv. 10. landsk., að hjá ríkisverksmiðjunum muni vinna eins margir námsmenn eða fleiri en hjá einkaverksmiðjunum vil ég gefa þessar upplýsingar.

Á Siglufirði unnu í fyrra um 160 almennir verkamenn og þar af 10 námsmenn, eða um 6%. Á Hjalteyri unnu 70–80 manns, þar af 12–15 námsmenn eða hlutfallslega helmingi fleiri en í ríkisverksmiðjunum. Ég hefi hinsvegar ekki getað aflað mér upplýsinga um, hvernig þessu var háttað í Djúpuvík.