23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Ég gat þess í gær, að ég mundi geyma mér að tala þar til brtt. hefði verið lýst. Nú hefir tillögumaður gert grein fyrir efni till., og sömuleiðis hefir hæstv. atvmrh. borið fram brtt. sama efnis. Ég get með hvorugri brtt. verið, því ég álít, að hér sé gengið inn á það svið, sem ekki hefir áður þekkzt í löggjöfinni, að einhverri sérstakri stétt manna eru fengin í hendur forréttindi til almennrar vinnu. — Ég veit ekki betur en að námsmönnum, sem hafa viljað stunda líkamlega vinnu, hafi ekki gengið verr að komast að almennri vinnu en öðrum verkamönnum, enda eru þeir oft betur settir. Nú er þessi vinna á þessum tíma árs, þegar allir leita starfs, sem það geta, og álít ég, að með þessu ákvæði, ef samþ. verður, sé verið að bægja hinni eiginlegu verkamannastétt frá þessari föstu vinnu, sem skapast í kringum verksmiðjurnar. Ég vil ekki á nokkurn hátt amast við því, að námsmenn fái vinnu, en ég álít, að þeir eigi að verða sér úti um vinnuna án nokkurrar ívilnunar þeim til handa, enda eru þeir sízt verr settir en atvinnulausir verkamenn, og hafa oft betri aðstöðu til þess með tilstyrk þeirra, sem að þeim standa.

Það er rétt að minnast á í þessu sambandi, að það er verið að tala um að gera ráðstafanir til þess, að hægt sé að flytja menn út í byggðir landsins upp til sveitanna, og þar eiga þeir að vinna fyrir litlu eða engu kaupi. En á sama tíma og þetta á að gerast, á að draga úr þeim möguleikum, sem kynnu að skapast fyrir menn til þess að vinna fyrir sér við sjávarsíðuna. Það er of gott fyrir verkamennina að fá vinnu við verksmiðjuna. Ég get ekki verið með þessu. Ég er kannske ekki nógu kunnugur þessum málum, en ég hefi orðið þess var, að námsmenn hafa komizt með góðu móti í ýmsa atvinnu að sumarlagi, svo sem vegavinnu og síldarvinnu, og einnig hafa þeir komizt í ýmiskonar verzlunarstörf. Þetta er talið sjálfsagt, að menn reyni að ota sér fram eftir því, sem unnt er. Hér á svo að bægja verkamönnum frá þeirri vinnu, sem þeim raunverulega ber, og það er ekki nema eðlilegt, að slíkt veki andúð meðal verkamanna, — það er enginn hlýleiki, sem kemur fram hjá flm. til þeirra. Ég lít svo á, að ef ríkið ætlar að auka framleiðsluna, ætti það fyrst og fremst að koma verkamönnunum til góða. Mér sýnist það ekki rétt stefna að ganga framhjá verkamönnum, ef um einhverja aukna atvinnumöguleika er að ræða.