23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Árni Jónsson:

Ég skal játa, að þessi skrifl. brtt. atvmrh. bætir nokkuð úr till., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. S.-Þ. E n þó svo sé, get ég ekki greitt atkv. með henni. Mér finnst það varhugaverð braut, sem verið er að ganga inn á hér. Ég vil benda á það, að ef rétt er að gera ráð fyrir auknum atvinnuvandræðum —, og það er rétt að gera ráð fyrir því, — þá er hætt við því, að komi til árekstra um þessa atvinnu milli fátækra fjölskyldumanna og einhleypra manna. Ég held, að fyrir þá ríkisstj., sem vill hafa góðan stuðning og reyna að fá traust sem flestra, sé það varhugavert að ganga inn á þessa braut. Það, sem hér er gert ráð fyrir, er, að þeir, sem lokið hafa gagnfræðaprófi og stúdentsprófi gangi fyrir öðrum mönnum um þessa vinnu. Þetta er óeðlilegt að binda í l.

Svo vil ég víkja að því, sem hv. 2. landsk. talaði um. Hann benti á það réttilega, að það tíðkaðist nú, að námsmenn hér geti haft aðgang að atvinnu við vegavinnu, símavinnu o. fl. Ég álít það mjög heppilegt, að þetta gæti haldið áfram, en hvort við erum nokkuð betur settir, þó að þetta ákvæði verði að l., tel ég mjög vafasamt. En ef hér á að fara að koma upp menntamannaverksmiðju, þá gæti ég ímyndað mér, að ýmsir, sem annars hefðu tekið námsmenn í vinnu, myndu segja við námsmenn: Það er bezt fyrir þig að snúa þér til Raufarhafnar. — Ég álít því varhugavert að samþ. þessa brtt., frá hvaða sjónarmiði sem hún er skoðuð. Ég tel þó brtt. hæstv. atvmrh. til mikilla bóta.