02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Finnur Jónsson:

Ég hefi borið fram 2 brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 612. Þær eru um það, að 4. gr. falli niður. Ég hefi talið ástæðulaust að vera að lögfesta nokkuð um þetta, því það hefir sýnt sig, að ekki hafa verið nein vandkvæði með það að fá samninga af frjálsum vilja hjá ýmsum verksmiðjum um að láta fátæka námsmenn fá vinnu. Í hverri verksmiðju og í hverju fyrirtæki, sem hefir verið sett á stofn, hafa nokkrir námsmenn komizt að vinnu. Ef farið væri að lögfesta eitthvað um þetta atriði, gæti það orðið til þess, að heldur yrði farið að amast við námsmönnum af hálfu verkamannanna, sem hér eiga hlut að máli. Ennfremur tel ég, að það sé ekki hlutfallið milli atvinnulausra verkamanna og námsmanna, sem réttlæti það, að helmingur af viðbótinni við verksmiðjuna komi úr hópi námsmanna. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið frá forstjóra síldarverksmiðjanna, verður bætt við um 40 mönnum. Það yrði ekki hjá því komizt, að margir verkamenn yrðu atvinnulausir, ef helmingurinn af viðbótinni kæmi úr hópi námsmanna, utan Raufarhafnar. Í flutningi frv. kemur fram ósamræmi frá hálfu einstakra þingmanna. Sá sami þm. vill nú ákafur lögfesta ákvæði um, að námsmenn gangi fyrir vinnu, sem gert hefir ítrekaðar tilraunir til þess að loka menntastofnunum fyrir þeim, sem þangað vilja sækja. Það er lítið samræmi í því, að gera það að skilyrði fyrir að fá vinnu, að sækja menntastofnanir landsins, en vilja þó loka þessum skólum. Ef hv. þd., mót von minni, fellst ekki á, að 4. gr. verði felld burt, hefi ég til vara flutt aðra brtt. á þskj. 63t). Hún er á þá leið, að inn í gr. bætist á eftir orðunum „verksmiðjustjórnin láta“: „utanhéraðsverkamenn, þar á meðal“. Nokkur hætta gæti orðið á því, að menn þyrptust til Raufarhafnar í von um vinnu við hina nýju verksmiðju. Þess vegna væri þörf á að koma í veg fyrir með lagaákvæði, að þorpið yfirbyggist, og leyfa utanhéraðsverkamönnum að ganga fyrir vinnu. Ég ber þessa till. aðeins fram sem varatill., en mun fylgja minni aðaltill. á þskj. 612, um að Alþ. fari ekki að blanda sér inn í þessi mál. Það hefir sýnt sig, að þar sem síldarverksmiðjur hafa verið reistar, hafa gengið mjög greiðlega samningar við verklýðsfélögin um að veita utanhéraðsmönnum nokkra vinnu, og eins námsmönnum. Ég fyrir mitt leyti tel, að sú reynsla, sem fengizt hefir í þessu efni, sýni, að engin þörf er á löggjöf um þetta og að bezt muni vera, að atvinnurekendur og verkamenn semji á frjálsan hátt um þetta sín á milli. Ég vænti þess svo, að hv. þdm. greiði atkv. með till. minni um að fella niður 4. gr., en ef hún yrði felld, þá að styðja brtt. mína á þskj. 630, um að utanhéraðsmenn megi ganga fyrir vinnu.