02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Finnur Jónsson:

Ég vil leiðrétta eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Ég vil lýsa því yfir sem alveg ósönnu máli, að verkamenn hafi amazt við námsmönnum um að fá vinnu í landi. Ég vil í því sambandi benda honum á, að það hafa verið í gildi um nokkurt skeið samningar við verkamenn á Siglufirði, að verksmiðjustjórnin hefði jafnan rétt til að láta 10 námsmenn, sem heima eiga utan Siglufjarðar, fá vinnu í verksmiðjunum. Þetta hefir fengizt alveg með frjálsum samningum við verkamannafélagið, og það hefir aldrei komið fram krafa um, að þessi réttindi námsmanna yrðu afnumin. Auk þessara 10 námsmanna, sem eiga heima utan Siglufjarðar, er svo meira og minna af námsmönnum, sem eiga heima á Siglufirði sjálfum, og eru þeir að sjálfsögðu í verkamannafélaginu þar og ganga þar fyrir vinnu sem heimamenn og meðlimir í verkamaanafélaginu. Ég veit ekki til, að nokkru sinni hafi verið á neinn hátt amazt við námsmönnum þarna, hvorki innan- né utanbæjarmönnum, enda liggur í hlutarins eðli, að þeir námsmenn, sem þarna eru til vinnu, eiga aðgang að sínu stéttarfélagi og öðlast á þann hátt vinnuréttindi. Það er eins og hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki vitað um þetta, þessa sjálfsögðu reglu, sem alstaðar gildir, að menn teljast verkamenn, þó að þeir stundi nám á vetrum, og geta þannig öðlast sín vinnuréttindi eins og ég hefi þegar bent á. Annað mál er það, að löggjöfin ætli að þröngva þessari tölu námsmanna inn í það, sem viðurkennt er arðsamasta vinna á landinu, meðan þús. verkamanna ganga atvinnulausir á sama tíma.

Þessi hv. þm. hlýtur, ef hann er á móti öllum brtt., að vera líka á móti brtt. sjútvn. Ég sé, að það er enginn af þessum flytjendum í d. og vildi því benda hv. 1. þm. Skagf. á, að brtt. um að færa tölu námsmanna úr helmingi niður í þriðjung er fyrst og fremst komin fram fyrir mótmæli framkvæmdarstjóra verksmiðjanna, því að hann telur mjög erfitt að reka verksmiðjuna með svo mörgum óvönum mönnum. Ennfremur er það, sem ég hefi bent á, að æðimargir af þessum námsmönnum þurfa að fara burt í byrjun sept., áður en vinnutíminn er úti í verksmiðjunum, og er því erfitt að hafa svona marga menn, sem geta ekki verið allan tímann. Og þó að hann meti þetta að engu, þá liggja fyrir mótmæli frá verkamönnum á Raufarhöfn, hreppsnefnd Presthólahrepps og þm. kjördæmisins, sem er veikur og getur því ekki komið hingað til þess að berjast fyrir máli kjördæmis sins. Má vel vera, að hann meti þetta einskis, en ég vona, að meiri hluti hv. þm. taki þetta þó til greina.