03.01.1940
Efri deild: 100. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þegar þetta mál var hér síðast í deildinni til umr., andmælti ég þeirri till., sem þá kom fram, að láta efnalitla nemendur sitja fyrir vinnu, samkv. ákvæði í l. Ég benti á, að þetta gæti orðið vafasamur greiði fyrir þessa nemendur, að setja þá út í sérstakt horn, og í öðru lagi benti ég á það, að þetta væri móðgun við verkalýð landsins, þar sem það væri tryggt, að þeir gætu ekki komizt að þessari vinnu. Ég sé, að hv. Nd. hefir gert breyt. á þessari till. og fækkað þeim úr helmingi niður í 1/3. Það er að sjálfsögðu um færri menn að ræða, en þrátt fyrir það vil ég mæla á móti þessu. Ég vil benda á, að það hefir verið venja, að þessir ungu námsmenn hafi notið ýmissa áhrifamanna í þjóðfélaginu og að þeir hafa ekki verið hornreka með að komast að störfum, en þetta mundi hafa það í för með sér, að það yrði ekki lengur hægt að koma þeim á þá staði, þar sem þeir hafa flotið inn, og þá er búið að gera þeim bjarnargreiða. Ég geri ráð fyrir, að þótt ekki stæði neitt um það í lögum, mundu þessir menn að sjálfsögðu taka tillit til þess og mundu skjóta þeim þarna inn. Það mundi horfa öðruvísi við. Ég vil því eindregið mælast til þess, að brtt., sem ég leyfi mér að leggja fram fyrir forseta frá mér og hv. 10. landsk., verði samþ. Þessi brtt. er um það, að þessi 4. gr. frv. falli niður, því að ég tel hana óþarfa og varhugaverða gagnvart þeim, sem hún á að koma að gagni.