21.04.1939
Efri deild: 45. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

64. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Magnús Gíslason). Herra forseti! Allshn. hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og Nd. hefir gengið frá því, en þar var það borið fram að tilhlutun fyrrv. ríkisstj. Breyt. allar eru á 3. kafla l., og aðalbreyt. er fólgin í l. gr. frv., þar sem bætt er í 16. gr. l.:

„Ennfremur er atvmrh. heimilt að skipa einn trúnaðarmann í hverjum landsfjórðungi, er hafi á hendi eftirlit með sveitarstjórnarmálefnum í umdæmi sinu undir yfirstjórn atvinnumálaráðuneytisins“. M. ö. o., þeim ráðh., sem fer með þessi mál, nú félagsmrh., er veitt heimild til að skipa 4 trúnaðarmenn, einn í hverjum landsfjórðungi. Hvernig eftirlitið á nánar að vera, sést ekki á l., en þar sem engar breyt. eru á sveitarstjórnarl. í þessu frv., verður eftirlitið að miðast við valdsvið núverandi félagsmálaráðuneytis í þessum málum.

Eftir grg. þeirri, sem fylgir frv. upphaflega, er að álíta, að eftirlitsmönnunum verði falin úthlutun atvinnubótafjárins, og í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sjálfur atvmrh. skuli leita álits og tillagna eftirlitsmanna sveitarstjórnarmálefna um skiptingu og úthlutun þess fjár, sem árlega er veitt í fjárlögum til atvinnubóta.

Það má deila um, hve mikið gagn sé að þessum ákvæðum, og hvort það sé líklegt, að einn maður geti haft eftirlit með fjárreiðum sveitarfélaga í heilum landsfjórðungi. En það

er líka sjálfsagt, að sá ráðh., sem fer með þessi mál, gæti þess, að fénu sé ekki gálauslega varið, og það verður að álíta, að það geti verið ráðh. mikill styrkur að hafa slíka tilsjónarmenn. Hér er um aukinn kostnað að ræða, en hinsvegar er eftirlitið alveg marklaust, ef ekki sparast meira við það en greiða þarf í kostnað. Hér er aðeins um heimild að ræða, og n. vill ekki synja um hana, með þeim fyrirvara, að starfið verði lagt niður, ef það ber ekki tilætlaðan árangur.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að 18. gr. verði felld niður, en hún hljóðar um það, að. eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna sé jafnframt forstjóri jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Þessi gr. er felld niður af ástæðum, sem greinir í grg. frv.

Í 3. gr. er gerð sú breyt. á 19. gr. laganna, að í stað þess, að þar (í 19. gr.) stendur, að eftirlitsmanni sé skylt að halda eftir greiðslunni úr jöfnunarsjóði, nefnilega ef bæjar- eða sveitarfélag er í vanskilum gagnvart ríkissjóði, kemur: og er þá rétt að halda eftir o. s. frv. Samkv. frv., sem fyrir liggur, er viðkomandi ráðuneyti því aðeins heimilt að draga frá fénu vissa fjárhæð til greiðslu á skuldbindingum bæjar- og sveitarfélaga. Ástæðan til þessarar breyt. mun vera sú, að það hafi oft ekki verið hægt að draga slíkar greiðslur frá, af því að fjárhagur hreppanna hefir verið svo bágborinn. Í framkvæmdinni er það nú svo, að ýms hreppsfélög eru búin að taka lán til daglegra þarfa út á þennan styrk úr jöfnunarsjóði. En það er tilgangslaust að halda ákvæði í lögum, sem alls ekki er hægt að framfylgja.

Þá er 4. gr., um að félagsmrh. geti vikið bæjarstjóra eða oddvita frá starfi og sett annan í hans stað til þess að fara með málefni bæjarins eða hreppsins, þó ekki lengur en eitt ár í senn.

Þetta ákvæði er tekið úr samsvarandi löggjöf hjá Norðmönnum, þar sem heimilt er að víkja starfsmanni frá, ef hann fer ekki með umboð sitt sem skyldi. Þetta er eðlilegt ákvæði, þegar þess er gætt, að meiri hluti fátækraframfærslunnar er greiddur úr ríkissjóði, og sjálfsagt, að stj. ráði þeim mönnum, sem fara með úthlutunina.

N. er sem sagt ásátt um að leggja til, að frv. verði að lögum.