03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

164. mál, fiskimálanefnd

*Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir, eins og nál. ber með sér, klofnað um þetta mál. Ég og hv. þm. Barð. berum fram rökst. dagskrá, þar sem við lýsum því áliti okkar, að við teljum, að starfsemi fiskimálanefndar sé svo víðtæk og nauðsynleg, að ekki sé rétt, eins og ástatt er nú um fisksölu og sjávarútveg, að fækka nefndarmönnum frá því, sem nú er, og rýra þar með starfsmöguleika n.

Við 1. umr. þessa máls beindi ég þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh. og hæstv. viðskmrh. hvort ætlunin væri að rýra starfsfé fiskimálanefndar eins mikið og frekast væri unnt samkv. l., og hvort af þeim ástæðum væri lagt til að fækka nm. Hæstv. viðskmrh. svaraði því, eins og rétt er, að þetta frv. bæri það ekki með sér, en á hinn bóginn væri þetta mest á verksviði atvmrh., sem fiskimálanefnd heyrir undir, hvert starf hann felur n. að framkvæma. Ég vil því leyfa mér að beina athygli framsóknarmanna, sem stóðu að þessari löggjöf um fiskimálanefnd með alþýðuflokksmönnum, að því, að hæstv. atvmrh. fékkst ekki til að svara þessari fyrirspurn, og af því myndi ég ráða það, að hann ætlaði sér að rýra starfsfé n. svo mikið, sem l. frekast heimila, og það sé þess vegna, sem hann leggur nokkurt kapp á að fækka mönnum í nefndinni. Ég mun ganga út frá þessu sem gefnu á meðan ekki kemur svar um þetta frá hæstv. atvmrh. Ef hann svarar á aðra lund, þá mun ég að sjálfsögðu taka það svar gott og gilt og gleðjast yfir því í mínu hjarta.

Ég hefi, auk þess að bera fram hina rökst. dagskrá ásamt hv. þm. Barð., til vara lagt fram brtt. um það, að í staðinn fyrir að 3 menn skipi nefndina, eins og lagt er til í frv., þá verði nefndarmennirnir 5, og þá einn skipaður eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands og annar eftir tilnefningu Útgerðarmannsambands Ísl. Fari svo, að hv. þd. fallist ekki á hina rökst. dagskrá, þá vildi ég fastlega mælast til þess við hv. þd., að samþ. yrði sú brtt., sem ég ber fram á þskj. 602.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að svo stöddu, þar sem mjög er áliðið nætur.