21.04.1939
Efri deild: 45. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

64. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Þorsteinn Þorsteinsson; Mér skilst vera meiningin með l. frá 1937, um jöfnunarsjóð, að hann væri til að hjálpa bæjar- og hreppsfélögum, sem væru illa stödd. En nú sýnist mér vera farið inn á aðra braut. Mér sýnist vera farið að bæta allmiklum útgjöldum á þennan sjóð. Fyrst var eftirlitsmaður einn, en nú eru þeir orðnir 5. Ef þessu heldur áfram, hugsa ég, að svo geti farið, að ríkisstj. sjái fyrir miklu af tekjum sjóðsins. Ég get ekki séð af grg. frv., að það sé svo mikil nauðsyn að fjölga mönnum til að vinna að þessu verkefni, sem „fjórðungsmönnunum“ er ætlað. Einn maður hefir verið við það, og ég hefi ekki heyrt kvartað um, að það nægði ekki. Ég held það sé ekkert betra að dreifa því eftirliti og þeirri ábyrgð í 4 staði á landinu og greiða „fjórðungsmönnunum“ fyrir það bæði laun og

ferðakostnað og borga aðstoð handa þeim, eins og sjálfsagt þarf, ef nokkrar skýrslur á að semja, og hver veit hvað margt. Ég er því algerlega móti 1. gr. frv. og mun greiða atkv. móti henni. Ég veit ekki, hvað gott leiðir af því að draga ráð úr höndum einstakra sveitarstjórna undir fjórðungsstjórana. Og ég tel, að þeir hreppar, sem eiga að njóta styrks úr jöfnunarsjóði, megi ekki við því að setja þann styrk í laun til þeirra manna.