03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

164. mál, fiskimálanefnd

*Sigurður E. Hlíðar:

Það var víst 23. f. m., sem þessu frv. var vísað hér til 2. umr. og sjútvn. Á fyrsta fundi n. eftir jól varð hún, eins og upplýst hefir verið, ósammála um afgreiðslu þess. Minni hl., hv. þm. Barð. (BJ) og hv. 6. landsk. (EmJ), voru mótfallnir frv. (sbr. þskj. 62!)), þar sem þeir leggja til að visa því frá með rökst. dagskrá, en meiri hl. skilaði nál. á þskj. 626, þar sem mælt var með að samþ. frv., en einn nm., hv. þm. V.-Húnv., gerði ágreining um kosningu formanns og gerði brtt., sem er á þskj. 627, um það atriði. Nú er frsm. meiri hl., hv. 6. þm. Reykv. (SK), ekki viðstaddur, svo að ég verð að láta nokkur orð fylgja málinu. Þetta virðist gert að undarlegu kappsmáli einstakra manna, og bak við það allt liggur einhver óskiljanleg tortryggni. Það eru leifar af því andrúmslofti, sem var um málið, þegar fiskimálanefnd var stofnuð. En ég verð að fullyrða, að ég var grandalaus um það við athugun frv., að hér lægi fiskur undir steini, eða að nokkuð í frv. gæti miðað að því að granda nefndinni. Hv. fl. landsk. gat þess einnig réttilega, að fyrir fjvn., sem átti upptökin að þessu, mundi ekkert hafa vakað nema sparnaður, sem var mjög ríkur í huga þm., a. m. k. framan af þinginu. Það var álitið, að 3 menn gætu þarna afkastað jöfnu verki og 7 menn og n. þyrfti ekki að bíða neitt óbætanlegt tjón af fækkuninni. Síðan hefir verið samþ. hér á Alþingi að draga úr framlögum til n. um 150 þús. kr. Framhald þeirrar hugsunar er, að draga megi úr stjórnarkostnaði n., í þágu framkvæmdanna, með því að fækka nm. Starfskostnaður n. hefir hlaupið upp í 62 þús. kr., og á því er enginn vafi, að eitthvað mætti draga úr þessum útgjöldum. Ég held, að þrír menn gætu alveg eins vel leyst þetta starf af hendi og sjö menn. Ég hefi ekki enn fengið það inn í mitt höfuð, að ekki mætti mikið draga úr þessum kostnaði með því að fækka nm. úr 7 niður í 3. Ég vil því í nafni hv. 6. þm. Reykv. mæla með framgangi þessa frv. hér, og vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að samþ. það.