17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi náttúrlega ekki vald til þess að segja hæstv. atvmrh. fyrir um það, hvenær hann skuli afgr. mál í stjórnarráðinu. En af þessu má geta því nærri, hvaða hraði er þar á afgreiðslu mála, þar eð það tekur ófyrirsjáanlega langan tíma að afgr. annað eins mál sem þetta. En úrskurður þess gæti fallið ákaflega bagalega fyrir bæjarstjórn, vegna þeirra ráðstafana, er þar hafa verið gerðar síðan þetta skeði.

En hvað síðari fyrirspurn mína snertir, þá lítur út fyrir, að hæstv. atvmrh. hafi ekki vitað um tilkynningu frá póst- og símamálastjóra um það efni. Svar hans er aðeins viðvíkjandi öðrum hluta þessarar tilkynningar. sem er á þá leið, að á morgnana og kvöldin skuli þm. ganga fyrir öðrum um símtöl, en um miðbik dagsins verða beiðnir um símtöl við þingmenn ekki afgreiddar.

Ég vildi, að hæstv. atvmrh. kynnti sér efni þessarar tilkynningar betur en hann hefir gert og gefi skýringar á því, hvers vegna hér er verið að skapa þingmönnum annan og minni rétt en öðrum landsmönnum.