17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Mig langar til þess að bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. forsrh. Í sambandi við þá atburði, sem gerzt hafa í Evrópu undanfarna daga, og fréttir, sem hafa birzt í dagblöðunum um heimsóknir Þjóðverja til Íslands, hefir orðið vart við nokkurn ugg hjá landsmönnum. Ég vildi, að hæstv. forsrh. gæfi upplýsingar ef hann getur, um það, hvort þessi þýzki rannsóknarleiðangur hafi lagt af stað með Dronning Alexandrine frá Kaupmannahöfn. Það er látið í veðri vaka, að hann eigi að halda áfram þeim landmælingum, sem gerðar voru hér á landi fyrir nokkrum sumrum til að ganga úr skugga um, hvort kenning Wegeners væri rétt, að löndin færist til. En ef þessi rannsóknarleiðangur er lagður af stað til Íslands, hefir hann þá óskað eftir leyfi frá íslenzku ríkisstj. til að fá að ferðast um landið, og hverju hefir hæstv. stj. svarað þeirri málaleitan?

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. forsrh., hvort þeir þýzku flugmenn, sem eru með Dronning Alexandrine og taldir eru vera á vegum þýzka flugfélagsins Luft-Hansa, eigi að semja við íslenzku ríkisstj. um lendingarstaði fyrir þýzkar flugvélar í sambandi við flugsamgöngur við Ameríku. Hafa þessir þýzku flugmenn óskað eftir að fá að tala við íslenzku ríkisstj., og hugsar hæstv. ríkisstj. að ræða nokkurn skapaðan hlut við þá um þetta mál?

Þar sem von er hingað á einu af stærstu herskipum Þjóðverja, Emden, þá vildi ég einnig spyrja hæstv. forsrh., hvort stj. ætli að leyfa þýzkum hermönnum að fara í fylkingu um götur Reykjavíkur eins og síðastl. ár, ganga hergöngu og syngja hersöngva eins og í herteknu landi, og að síðustu langar mig til að spyrja, hvort nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar í sambandi við væntanlega heimsókn hins þýzka herskips til þess að tryggja það, að um sama leyti, sem Emden kæmi, yrðu ensk eða amerísk herskip hér líka viðstödd?