17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Hv. 5. þm. Reykv. blandaði saman því, sem ekki var ástæða til að misskilja í orðum mínum, að koma flugmannanna stæði í sambandi við komu Emden. Fulltrúarnir, sem eiga að semja um flugvellina, koma með Dr. Alexandrine hingað og standa ekkert í sambandi við komu Emden. Ég skal taka það fram út af því, að hv. 5. þm. Reykv. spurði, hvort þessir menn væru S.S.-menn. að ríkisstj. hefir ekki látið fara fram neina rannsókn á því, hvaða partíi mennirnir, sem koma hingað, tilheyra. Um það, hvort hér yrði skipt um þýzkan konsúl, er því að svara, að það hefir ekki komið nein orðsending til ríkisstj. um það.

Þá var hv. þm. að tala um rannsóknir hér á landi almennt, að það væri varhugavert að leyfa útlendum mönnum að framkvæma hér rannsóknir. Í því sambandi vil ég sérstaklega benda á, að þessi hv. þm. og hans flokksmenn fundu að því við ríkisstj., að hún hefði ekki verið fús til þess að leyfa útlendum mönnum. sem hingað komu, greiðan aðgang að því, að rannsaka Vestfirði. Ég álít, að þessi varasemi, sem þessi hv. þm. vill sýna í þessu efni, geti því aðeins orðið okkur til góðs, að hún sé a. m. k. almenn, en henni ekki beint til einna fremur en annara. Og um það atriði, hvort Alþ. vilji taka almenna stefnu um það að leyfa ekki útlendingum að rannsaka þetta land, nema undir stjórn íslenzkra vísindamanna, hlýtur Alþ. að taka upp almennar reglur, ef það lætur það mál til sína taka. Það eru vitanlega fleiri okkur vinveittar þjóðir en Þjóðverjar, sem framkvæma hér rannsóknir og hafa gert á undanförnum árum. Og vitanlega verða um þetta atriði teknar upp almennar reglur, sem ekki er ástæða til að beina neitt sérstaklega gegn einni þjóð fremur en annari, heldur ber þjóðinni að taka upp reglur um þetta sem eitt af sínum sjálfstæðismálum. Þetta er atriði, sem liggur fyrir nú til athugunar í sambandi við það, að nú hefir af atvmrh. verið skipuð nefnd til þess að taka allar þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á landinn, saman í eitt, og byrja á skipulögðum rannsóknum á landinu. Ég álít, að það verði eitt af því, sem fellur inn á verksvið þessarar nefndar, hvaða tökum á að taka á ýmsu viðvíkjandi rannsóknum erlendra manna á Íslandi yfirleitt. En það er ekki ástæða til þess, þó að hingað komi um 3–4 herskip á ári til lands, hvort sem þar er um að ræða Englendinga eða Þjóðverja eða hverjir svo sem það eru, að byrja á því að taka eitthvað af þeim heimsóknum út úr í þessu sambandi, hvort sem þær koma frá Oxford eða Cambridge eða frá Þýzkalandi. Það er ekki ástæða til að taka þessar heimsóknar- eða rannsóknarferðir hverja fyrir sig og sérstaklega, með tilliti til þessa eftirlits, heldur ber ríkinu að taka málið almennt og einungis í því formi, að hægt sé að bera málið fram almennt hér á hæstv. Alþingi.