20.03.1939
Neðri deild: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Út af þessari fyrirspurn eða málaleitun vil ég taka það fram, að ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að breyta út af þeirri reglu, er höfð hefir verið. Flokkar þeir. sem eiga fulltrúa í utanríkismálan., hafa tækifæri til að fylgjast með þessum málum, og þar með meiri hl. þingsins, og geta þessir flokkar gert kröfu til þess, að málin verði rædd í þingi, þegar þeim finnst við þurfa.

Þessi krafa hv. 3. þm. Reykv. er ekki ný hér á þingi. En ég sé sem sagt enga ástæðu til að breyta til í þessu efni, þar sem hinir þrír aðalþingflokkar hafa fullt tækifæri til að ræða utanríkismálin. Það hefir verið venja að ræða samninga þá, sem gerðir hafa verið við önnur ríki, í utanríkismálan., en ekki á Alþingi, eins og t. d. breytingu þá. sem gerð var á norsku samningunum, og framlengingu á samningum þeim, er gerðir voru við Þýzkaland.

Um það atriði, að blöðunum sé gefinn meiri kostur á en hingað til að fylgjast með utanríkismálunum, verð ég að segja hið sama, að ég sé ekki heldur ástæðu til þess. Ég tel sum blöðin hafa skrifað þannig um utanríkismálin, að ekki sé ástæða til að veita þeim frekari upplýsingar en hingað til. Ég hefi fyrir nokkru leitað til blaðanna um að skrifa ekki eins ógætilega og hingað til um ýms erlend mál, og sum blöðin hafa tekið því illa og ekki viljað verða við þeirri beiðni minni. Sé ég ekki ástæðu til, meðan blöðin hegða sér þannig, að breyta til um trúnað við þau. Þau hafa ekki sýnt málaleitun minni þann trúnað sum þeirra, án þess að ég muni greina hér nokkur nöfn.