20.03.1939
Neðri deild: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég held því fram, að stefna sú, sem hæstv. forsrh. vill taka hér upp, að halda þessum málum utan við þingið, sé gersamlega brot á venjum, er hér hafa gilt, því að á hverju þingi hingað til hafa utanríkismálin verið rædd. Þetta er ekki annað en réttnefnt einræðisbrölt, er nefnd örfárra manna á ein að fjalla um þau mál, er varða frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta er auk þess gagnstætt anda okkar þingræðis. Þessi hv. n. og eins hæstv. forsrh. bera ábyrgð gagnvart þjóðinni, og ég skil ekki, hvernig hann getur varið sínar gerðir án þess að skýra þinginu frá þeim. Ég sé ekki heldur, hvernig hann getur áfellzt blöðin fyrir skrif þeirra um utanríkismál, ef þau fá ekki neinar upplýsingar um þau, eins og tíðkast t. d. á Norðurlöndum. En ef þessar upplýsingar fást ekki á þann hátt, sem hér er farið fram á, þá mun ég leita annara ráða til að afla þeirra.