23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Mig langar til að segja nokkur orð í sambandi við þá fyrirspurn, sem hv. þm. G.-K. var að koma með.

Hv. þm. var með fyrirspurn út af frétt, sem stóð í dönsku blaði um fyrirspurn, sem ég kom með fyrir nokkrum dögum og hæstv. forsrh. svaraði að nokkru leyti. Þessi frétt er birt samkv. skeyti, sem Þjóðviljinn hefir sent út. Ég get sagt ykkur frá, hvernig þetta skeyti er. Ummæli hæstv. forsrh. eru þar citeruð á nokkurn veginn sama hátt og í Þjóðviljanum. Þar eru þessi orð:

„Forsætisráðherrann upplýsti, að Þjóðverjar heimtuðu lendingarstaði fyrir flugvélar samkvæmt gömlum samningum um beztu kjör, en að ríkisstjórnin álíti, að Þjóðverjarnir gætu ekki krafizt þessara réttinda, þar sem aðrar þjóðir hefðu þau ekki heldur. En um þetta verður samið, þegar Emden kemur, sagði forsætiráðherrann óvart, þó að flugmennirnir hinsvegar kæmu með Dronning Alexandrine.“ Það, sem sagt er, er því nákvæmlega það sama og það, sem ég í þingræðu tók upp eftir hæstv. forsrh., og það, sem hann sjálfur sagði þá, svo að þar er aðeins citerað í það, sem hæstv. ráðh. sagði.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að það, sem sagt er um ógnun af hálfu Hitlers-Þýzkalands, þá dregur blaðið sjálft það út af skeytinu, en til þess vil ég segja, að hvert blað í Evrópu, sem þorir að tala um utanríkismál, hefði haft næga ástæðu eftir reynslunni að draga slíkar ályktanir. Eins og menn hafa tekið eftir, sem hafa lesið Þjóðviljann, þá er þar ekki sagt, að verið sé að hóta neinn, en það veit hver maður, hvað liggur á bak við, þegar herskip er sent hingað upp um þetta leyti árs. Það geta menn séð hvar sem er. Svo kemur þessi hv. þm. fram með aðdróttanir um, að verið sé að skaða íslenzka hagsmuni. Ég vil í því sambandi leyfa hér að varpa fram þessari spurningu: Hverjir eru það, sem skaða hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, ef ekki þeir, sem reyna að dylja á slíkum tímum sem nú eru, hvaða hætta nú vofir yfir okkur? Hverjir skaða hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, ef ekki þeir, sem reyna á slíkum tímum sem nú, þegar hver smáþjóðin af annari missir sitt frelsi, að viðhalda þeirri blekkingu hjá okkar þjóð, að við séum öruggir hér úti á hjara veraldar um það, að nokkur stórþjóð eins og Þýzkaland muni vilji taka okkur? Hvenær sem ofbeldisverk hafa verið framin úti í löndum, sem ættu sannarlega að vekja okkur til meðvitundar um þá yfirvofandi hættu, þá reyna blöð flokks þessa hv. þm. á allan hátt að breiða yfir það, reyna að telja þjóðinni trú um, að okkur sé óhætt. En smáþjóð eins og okkur er einmitt nauðsynlegt að vekja eftirtekt á því, ef hætta steðjar að henni, en þegar slíkar raddir koma fram, þá vill þessi hv. þm. stöðva það með ritskoðun og binda fyrir munninn á þessum skaðræðisgripum, sem leyfa sér að segja sannleikann, þegar sjálfstæði landsins er í hættu. Af þessu er bert, hvað nazisminn er farinn að ná inn í raðir sérstakra flokka hér á landi. Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem þessi hv. þm. vill takmarka prentfrelsi hér á landi. Það hafa komið fram áður kröfur um það, þegar ekki mátti segja annan sannleika en þann, sem Thorsararnir vildu. En það gengur nokkuð langt. þegar þvert ofan í það, sem stjórnarskráin fyrirskipar, er krafizt skeytaskoðunar. Ég veit ekki til, að frásögninni í Þjóðviljanum hafi á nokkurn hátt verið mótmælt, og er þó skeytið mun linara en hún. Og þá liggur ekkert fyrir nema sú venjulega æsing, sem skapast hjá ákveðnum forsprökkum Sjálfstfl., þegar minnzt er á, hvaða hætta Íslandi geti stafað af nazismanum.

Fyrst farið var að spyrja utan dagskrár, langar mig til að spyrja hæstv. forsrh., hvernig gangi með þá samninga, sem nú standa yfir milli hinna svonefndu ábyrgu flokka hér á þingi, og hvort nokkuð sérstakt hafi skeð, sem gefi tilefni til, að nánar sé farið að draga saman milli hv. þm. G.-K. og hæstv. forsrh., og hvort tillögur um stjórnarskrárbreyt. hafi komið fram frá hv. þm. G.-K.. sem sé í þá átt að innleiða ritskoðun hér á landi. Það kynni að standa í sambandi við, að þennan mann sé farið að dreyma um dómsmálaráðherrasess hér á landi, sem hann hefir setzt í áður illu heilli. Væri ánægjulegt, ef þingheimur fengi að vita, hvað nú gerist í stjórnmálunum hér á landi, áður en svo að segja hvert einasta mannsbarn veit það.