23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég finn ekki ástæðu til að deila mikið við hv. 5. þm. Reykv. um það, hvernig hann hafi heyrt það, sem ég sagði um daginn, þegar ég svaraði fyrirspurnum hans, en það, sem kemur mér til að álykta, að hann hafi sagt vísvitandi skakkt frá, er það, að strax og umræðurnar voru búnar áttum viðtal um þetta, og sagði ég honum þegar. að, hann hefði heyrt rangt. Að fara eigi að síður að hlaupa með misheyrn sína í erlend blöð er að fara vísvitandi með ósannindi.

Hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín fyrirspurn um það, hvernig skeyti þeirra félaga gæti skaðað íslenzka hagsmuni. Það þarf ekki mikilla útskýringa með, að þegar slík skeyti sem þetta skeyti Þjóðviljans eru send út, þar sem sagt er, að Þjóðverjar séu að hræða okkur. muni á margan hátt geta gert okkur tjón, enda liggja fyrir símskeyti frá Sveini Björnssyni, þar sem spurzt er fyrir, hvernig í ósköpunum standi á þessu. Í skeytinu er verið að fara með hrein og bein ósannindi um þjóð, sem er okkur vinveitt og hefir alltaf verið og ég vona að verði sem lengst. Þannig skaðar það vináttusamband vort við þessa þjóð og vekur ástæðulausa tortryggni hjá öðrum þjóðum.