23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Það væri öðru líkt, ef hæstv. forseti færi nú að hindra, að menn gætu kvatt sér hljóðs utan dagskrár, eins og tíðkazt hefir hér, og er það einmitt í samræmi við það, sem hv. þm. G.-K. vill.

Annars vildi ég aðeins víkja fáum orðum að hv. þm. G.-K. og hæstv. forsrh. Ég vil taka það fram án allrar meinfýsi í garð hv. þm. G.-K., að ég tel, að karlleggurinn sé líka alveg öruggur hvað hann snertir. En þó að menn séu af útlendu bergi brotnir, efast ég ekki um. að þeir geti fyrir því verið góðir Íslendingar, það situr bara ekki á slíkum mönnum sérstaklega að vera að bera okkur hinum það á brýn, að við séum óþjóðlegir.

Hv. þm. gat þess, að Sósíalistafl. hefði fengið prentvél gefins frá sænska Kommúnistaflokknum. Hv. 5. þm. Reykv. skýrði það að nokkru. Annars ætti hv. þm. G.-K. að vita, að við erum jafnvinsamlegir í garð kommúnistaflokkanna í nágrannalöndunum eins og sósíaldemókrataflokkanna og óskum vinsamlegrar samvinnu við báða, svo sem flokkur okkar er upp byggður.

En það eru fleiri, sem fengið hafa aðstoð erlendis frá. Alþfl. fékk til dæmis 20 þús. kr. erlendis frá, er Alþýðublaðið byrjaði að koma út, og síðar 25 þús. kr. Og nú er Alþfl. að taka erlendis 200000 króna lán, sem hann mun ekki geta borgað aftur, svo að menn sjá, að þessir styrkir nema mun meira en prentvélin, sem okkur var gefin skilyrðislaust.

Þegar Morgunblaðið var stofnað, fékk það líka mikið fé frá Danmörku meðal annars, og það meðan sjálfstæðisbaráttan stóð yfir hér. var það haft fyrir satt, að þessi fjárhagslega aðstoð við Morgunblaðið væri í té látin til þess. að Morgunblaðið drægist ekki of mjög inn í sjálfstæðisbaráttuna.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði stofnað til utanríkismálan. En ég veit ekki til þess, að fyrir liggi nein ákvæði um það, að menn skuli sérstaklega þegja um öll þau mál, sem gerast í utanríkismálanefnd, nema þá það, sem rétt virðist að halda leyndu í það og það sinn.

Að því er snertir norsku samningana, þá var þar verið að laumast að þjóðinni með þá, án þess að henni væri frá nokkru skýrt, eins og hefði þó verið sjálfsagt. Annars er það skrítin kenning, að enginn megi vita neitt um utanríkismálin, nema þeir, sem í þessari n. eru. Hvernig á þá þjóðin að mynda sér skoðun um það, hvað fulltrúar hennar aðhafast. Hæstv. forsrh. þegir eins og steinn, og aðrir mega ekki koma með neina gagnrýni, þó að þeir fái ekkert að vita um það, sem gert er í þessum málum. Þetta er svo andstætt því, sem gerist í nágrannalöndum vorum, að það getur ekki kallast sama stjórnarfar. Eins er um það, er hæstv. forseti vill banna mönnum að minnast hér á erlendar þjóðir. Í öllum þingum heimsins er slíkt leyfilegt, og ég held því fram, að hæstv. forseti hafi ekki vald til að meina mönnum orðið um slík mál.

Þá hefir hæstv. forsrh. runnið algerlega á því að koma með dæmi um það, á hvern hátt Ísland hefði skaðazt á ummælum Arbeiderblaðsins danska hér á dögunum. Hann getur sér þess til, að Þjóðverjum kunni að gremjast þessi ummæli og að það geti komið niður á öllum Íslendingum. Ég skil ekki þessar röksemdir. Hvað heldur hann, að oft hefði lent í stríði, ef Þýzkaland hefði hvert sinn farið á stað, er blaðamenn erlendis hafa leyft sér að tala öðruvísi um herra Hitler en hann óskaði? Hæstv. forsrh. verður að koma með önnur rök en þessi. Ég sagði áðan, að ef hann gæti ekki komið með áþreifanleg dæmi, þá væri yfirlýsing hans vísvitandi ósannindi. Og ég sé ekki, að það geti verið vont fyrir okkur, að lýðræðisþjóðirnar líti í kringum sig og athugi, hvað nazistar eru að hafast að hér á landi. Við munum, hvernig síðustu skilaboðin voru, þegar Memel var tekin, að ef ekki væri komið svar innan 48 klukkustunda eða ef leitað yrði aðstoðar, þá myndi þýzki herinn ráðast inn í landið. Væri því sannarlega tími til kominn, að hæstv. forsrh. færi að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja landið fyrir samskonar árásum.

Áður en ég lýk máli minn. vil ég lesa upp þetta umrædda skeyti, eftir beiðni hv. 5. þm. Reykv., sem sendi það, svo að menn geti séð í þingtíðindunum, hvernig það hljóðaði. En hvorki hv. þm. G.-K. né hæstv. forsrh. hafa minnzt á sjálft skeytið heldur aðeins fyrirsagnir blaða. Skeytið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Olgeirsson interpellerede idag paa socialistpartiets vegne althinget om tyske flyvere og emdens forestaaende besög statsministeren oplyste at tyskerne forlanger landingspladser for flyvemaskiner paa grund af gamle kontrakter om mestbegunstigelse men regeringen mener tyskerne kan ikke forlange disse rettigheder da andre nationer heller ikke har dem men herom vil der forhandles naar emden kommer sagde ministeren uforvarende skönt flyverne kommer med dronning alexandrine Olgeirsson fremhevede at islenderne ikke vil give tyskerne landingspladser og venter at regeringen holder fast paa det standpunkt.“

Þetta er nú allt og sumt. Og hér með er staðfest, að það sem hv. þm. G.-K. og hæstv. forsrh. hafa sagt hér, eru staðlausir stafir.