03.04.1939
Neðri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil leyfa mér að gera tvær fyrirspurnir til hæstv. forsrh. Önnur fyrirspurnin er um það, hvernig gangi með þjóðstjórnarmyndun þá, sem Framsfl., ásamt öðrum tveimur þingfl. hefir verið að semja um um langan tíma undanfarið, hvort enginn árangur hafi enn orðið af þeim samningum, eða hvort hans sé ekki að vænta. Þingið hefir á margan hátt beðið eftir því, hvað gerðist í þessum efnum, og meðgöngutíminn virðist vera orðinn hæfilega langur til þess að barnið geti fæðzt, ef það kemur lifandi í heiminn.

Hin fyrirspurnin er viðvíkjandi því, hvort ráðuneytinu hafi borizt nokkur fregn frá Vilhjálmi Þór um lántökumöguleika í Ameríku í sambandi við þá menn, sem hér komu á dögunum, og hvort honum hafi verið vísað á nokkra fjármálastofnun þar, sem hann geti samið við.

Þriðja atriði, sem ég ætla að spyrja um, virðist vera komið hér fram í frv. formi.