06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi gjarnan mega beina tveimur eða þremur fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj. Ég hygg, að þær snerti sérstaklega hæstv. forsrh., svo mér þætti vænt um, ef hann væri látinn vita af þessu.

Það hefir komið fram í blöðum, að tveir sjómenn af þýzku skipi, sem lá hér á höfninni, hafi strokið á land af skipinu, en síðan verið teknir og fluttir á Litla-Hraun. Ég vildi beina því til hæstv. forsrh., að hann gefi stutta skýringu út af þessu. Mér hefir skilizt, að viðvíkjandi slíkum mönnum sé um tvennt að ræða, annaðhvort, að þeim sé vísað úr landi eða þeir fái landvistarleyfi. En mér er ekki kunnugt um, að menn séu þannig teknir fastir, nema um hermenn sé að ræða. Aftur á móti er hér maður, sem var fluttur í land sjúkur af þýzkum kafbát, og það hefir verið sagt — og ég vil biðja hæstv. forsrh. að leiðrétta, ef það er rangt — að sá maður, sem er hermaður og ætti því að einangrast, gangi laus. Ég vil vænta frekari skýringa á þessu.

Í öðru lagi vil ég minnast á, að í blöðum hefir staðið, að bók ein, sem heitir „Í fangabúðum“ og fjallar um ástandið í fangabúðum Þýzkalands, hafi verið bönnuð fyrst um sinn. Þessi bók hefir verið seld hér 1–2 ár undir öðru nafni. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvers vegna nú fyrst sé bönnuð sala á þessari bók, og hvort svo eigi að vera áfram.

Þriðja fyrirspurn mín er út af ensku flugvélinni, sem hingað kom. Það er sagt, að foringi hennar eigi að koma hingað, en ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvenær sé von á honum og hvort flugvélin muni koma með honum.