22.04.1939
Efri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

64. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég á litla brtt. á þskj.

197, samskonar og ég flutti, þegar frv. var hér til umr. á haustþinginu 1937. Þá var það einróma álit allra hv. dm., að tekjur þær, sem áttu að koma til bæjar- og sveitarfélaga, væru sízt of háar. Þá minntist ég á, að svo gæti farið, að utan um þetta kæmi skrifstofubákn, er éta myndi upp þessar tekjur bæjar- og sveitarfélaganna, og er það nú komið á daginn, þar sem verið er að auka þetta eftirlit og rýra um leið tekjurnar. Þó að hv. deild vildi ekki fallist á þetta þá, hélt ég, að hún myndi nú hafa séð, að ég var sannspár þá, og myndi breyta sjónarmiði sinu. En ef Alþingi hefir einhver ítök um það, hve mikið fé er látið af mörkum, þá er þó meiri trygging fyrir því, að varlega sé farið, en ef einum ráðh. er veitt óskorað vald til að ráða svo og svo marga menn og borga þeim svo og svo mikið.

Till. mín fer í svipaða átt og till. hv. 5. landsk. Hann fer fram á, að fjvn. verði að samþ., ef mennirnir eigi að starfa lengur en eitt ár. Mín till. fer fram á, að helmingur kostnaðarins sé greiddur úr jöfnunarsjóði, en helmingur úr ríkissjóði.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta mál, en ég vænti þess, að hv. deild taki því nú betur en á haustþinginu, þegar málið var hér til umr.