22.04.1939
Efri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

64. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Magnús Gíslason) :

Hér liggja fyrir tvær brtt. Önnur er frá hv. þm. Hafnf., þess efnis, að kostnaður af l. greiðist að hálfu leyti úr jöfnunarsjóði og að hálfu leyti úr ríkissjóði. Í raun og veru væri samt allt úr sama sjóði, og legg ég ekki mikla áherzlu á þetta mál, hvorki til né frá. — Till. frá hv. 5. landsk. er að nokkru leyti orðalagsbreyting. Hann vill setja orðið félagsmálaráðh. fyrir atvmrh., þar sem félagsmrh. eigi nú að fara með þessi mál. Þar er þó því til að svara, að ef setja ætti alstaðar félagsmálaráðh. fyrir atvmrh., þyrfti að vissu leyti að gera allmiklar breytingar á l., því að óviðfelldið væri að tala um félagsmrh. í þessu frv., þar sem l. sjálf tala um atvmrh. Annars skiptir þetta ekki miklu máli, því að þetta má færa milli stjórnardeilda með konungsúrskurði.

En ef taka á til greina brtt. hv. 5. landsk., þá þarf að breyta brtt. sjálfri. Hv. þm. talar þar um eftirlitsmann, sem starfi í atvinnumálaráðuneytinu, en þetta er vitanlega endileysa, og ætti að standa í félagsmálaráðuneytinu.

Eins og ég tók fram í gær, fannst n. það ókostur á frv., að það hefir í för með sér aukin útgjöld. Þegar laun til opinberra starfsmanna eru orðin 5 millj. og 600 þús. kr., er ekki þar á bætandi. En sé þetta starf nauðsynlegt, verður ekki hjá því komizt að kosta nokkru til þess. Því vildum við veita ráðh. heimild til að ráða sér hjálparmenn. Ég get fallizt á, að efnisbreyting hv. 5. landsk. nái fram að ganga, því að hún er frekar trygging fyrir því, að heimildin verði ekki misnotuð.