01.11.1939
Sameinað þing: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

Minning látinna manna

forseti (PO) :

Frá því er fundum Alþingis var frestað í vor hafa tveir fyrrv. alþingismenn látizt, og vil ég, áður en þingstörf hefjast að nýju, minnast þeirra nokkrum orðum.

Annar þessara manna, Björn Kristjánsson fyrrv. bankastjóri, andaðist 13. ágúst síðastliðinn. Björn Kristjánsson fæddist 26. febrúar 1858 í Hreiðurborg í Flóa, sonur Kristjáns Vernharðssonar bónda þar og konu hans Þórunnar Halldórsdóttur, bónda í Þorlákshöfn Guðmundssonar. Hann ólst upp hjá fátækum foreldrum, en fór þaðan snemma í vinnumennsku til vandalausra og vann á unglingsárum sínum að algengum sveitastörfum jafnhliða sjóróðrum á vertíðum, eins og þá var títt. 18 ára að aldri tók hann að nema skósmíði og stundaði þá iðn um 6 ára skeið, 1876–1882. Frá bernsku hneigðist hugur hans mjög að söng og hljóðfæralist, og dvaldi hann í Kaupmannahöfn 1878–1879 og 1882–1883 til framhaldsnáms í söngfræði. Eftir heimkomu sína hafði hann alllengi á hendi kennslu í hljóðfæraslætti og söngstjórn, samdi nokkur sönglög og kennslubók í söngfræði. Á árunum 1883–1888 var hann við verzlunarstörf í Reykjavík, en á árunum 1888–1910 rak hann þar eigin verzlun, er hann fékk síðan í hendur syni sinum. Í rúman áratug, 1880–1891, var hann bæjargjaldkeri í Reykjavík. Á árunum 1909–1918 var hann bankastjóri í Landsbankanum, að fráskildum nærfellt 8 mánaða tíma á árinu 1917, er hann var fjármálaráðherra í ráðuneyti Jóns Magnússonar. Hann var þingmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu óslitið yfir 30 ár, eða frá 1901 til 1931. Auk þess, sem hér er talið, gegndi hann og fjölmörgum trúnaðarstörfum í almenningsþarfir, átti m. a. um langt skeið sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur.

Björn Kristjánsson var óvenju fjölhæfur gáfumaður og gæddur frábærum starfsvilja og starfsþreki, vildi brjóta hvert mál til mergjar, sem hann lagði hug og hönd að, og var ótrauður að taka á sig hverskonar vinnu og fyrirhöfn í því skyni. Hann naut engrar skólakennslu, en hafði einlægan hug á að mennta sig og brauzt þar áfram af eigin ramleik, lærði m. a. tungumál að mestu tilsagnarlaust, og mátti snemma heita mjög vil menntaður maður. Hann hafði sterkan og vakandi áhuga á þjóðmálum, og liggur eftir hann fjöldi ritgerða, einkum um fjármál, verzlunarmál og samgöngumál. Á þingi var hann sem annarstaðar starfsmaður mikill og lagði sig mjög fram um það að hlaða um málstað sinn sterkum rökum. Munu fáir eða engir hafa lagt jafnmikla vinnu og hann í greinargerðir sínar. Í stjórnmálabaráttunni gætti áhrifa hans mjög, jafnt innan þings sem utan, og mun hann jafnan verða talinn meðal hinna sóknhörðustu og þrautseigustu manna á þeim vígvelli. Hann hafði ríka trú á auðlindum landsins og var m. a. sannfærður um, að málmgröftur mundi hér framtíðaratvinnuvegur. Tók hann sér fyrir hendur að kynna sér þau mál, fór til Þýzkalands í þeim erindum og nam efnafræði og hafði um langt skeið með höndum sjálfstæðar rannsóknir á steinum og bergtegundum, er hann safnaði að sér víðsvegar af landinu.

Björn Kristjánsson var maður geðríkur og kappsfullur, óvæginn við þá, sem hann átti í höggi við, en tryggur og raungóður vinum sínum og mörgum mönnum hin mesta hjálparhella.

Hinn maðurinn, sem látizt hefir og ég vil hér minnast, er Þórður Thoroddsen læknir, þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu á árunum 1895–1902. Hann andaðist 19. f. m. Þórður Thoroddsen var fæddur 14. nóv. 1856 í Haga á Barðaströnd, sonur Jóns Thoroddsens sýslumanns og skálds og konu hans Kristinar Þorvaldsdóttur, umboðsmanns Sívertsens í Hrappsey. Þórður útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1877 og úr læknaskólanum 1881. Veturinn eftir gegndi hann kennarastörfum við Möðruvallaskóla, en næsta vetur, 1882–1883, dvaldi hann við framhaldsnám í sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn og tók jafnhliða námskeið í tannlækningum. Árið 1883 var hann settur héraðslæknir í Keflavíkurhéraði og skipaður í það embætti tveim árum síðar. 1904 fékk hann lausn frá embætti, fluttist til Reykjavíkur og gerðist gjaldkeri Íslandshanka, er þá var settur á stofn. Því starfi gegndi hann til 1909, síðan var hann starfandi læknir í Reykjavík til dauðadags. Auk þingmennskunnar, sem áður er getið, voru honum og falin ýms störf í þágu almennings á héraðslæknisárum hans syðra. Hann átti m. a. sæti í hreppsnefnd og sýslunefnd, var amtsráðsmaður um skeið, kaupfélagsstjóri í kaupfélagi Suðurnesja og framkvæmdastjóri þilskipafélags Suðurnesja. Hann var og um langt skeið einn af forvígismönnum góðtemplarareglunnar og stórtemplar í nokkur ár.

Þórður Thoroddsen var gáfaður maður, eins og hann átti kyn til, bar einkum gott skyn á allt, er að fjármálum laut, þótti prýðisgóður kennari í Möðruvallaskóla, var sérstaklega glöggur reikningsmaður og samdi reikningsbók til kennslu í skólum. Lengst mun hans þó minnst fyrir læknisstörf hans, er hann stundaði með alúð fram til síðustu stundar. Hann þótti ágætur læknir, nákvæmur við sjúklinga sína og hafði á þá góð áhrif með fjöri sínu og lipurð, enda báru þeir til hans hið bezta traust, og má segja, að fjölmargir þeirra hafi beinlínis trúað á hann.

Ég vil biðja háttv. þingmenn að votta minningu þessara látnu merkismanna virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þm. risu úr sætum.]