18.04.1939
Sameinað þing: 6. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

Stjórnarskipti

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Alþýðuflokkurinn telur æskilegt og eðlilegt eins og nú standa sakir, að samvinna gæti tekizt milli hinna lýðræðissinnuðu flokka í landinu, um ráðstafanir til þess að vernda og efla lýðræðið og tryggja sjálfstæði og hlutleysi þjóðarinnar.

Jafnframt er honum að sjálfsögðu ljóst, hverjir erfiðleikar og hættur geta steðjað að íslenzku þjóðinni vegna stjórnmálaástandsins í álfunni og ófriðarhættunnar, sem yfir vofir, og nauðsyn þess, að höfuðstjórnmálaflokkarnir hafi samvinnu um ráðstafanir til þess að mæta slíkum atburðum.

Með þetta fyrir augum hefir Alþýðuflokkurinn ekki talið rétt að skorast undan því að taka um skeið þátt í samsteypustjórn með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum, í því skyni að mæta þessum örðugu viðfangsefnum.

Alþýðuflokknum er ljóst ástand sjávarútvegsins, sem stafar af aflaleysi og markaðsörðugleikum undanfarinna ára, og nauðsyn þess, að ráðstafanir væru gerðar til þess að bæta afkomuskilyrði hans og koma rekstri hans á heilbrigðan grundvöll.

Þegar sýnt þótti, að gengislækkunin væri eina þingræðislega leiðin, sem hægt yrði að fara til þess að gera tilraun til viðreisnar sjávarútveginum, stóð meiri hluti af þingflokki Alþýðuflokksins að þessari lausn málsins. En um leið var flokknum fyllilega ljóst, að það væri með öllu ógerlegt, að sú verðhækkun, sem leiddi af gengislækkun, lenti óbætt og með fullum þunga á þeim stéttum, sem verst eru settar

Í þjóðfélaginu og erfiðleikar sjávarútvegsins á undanförnum árum hafa mætt mest á.

Það var alltaf afstaða Alþýðuflokksins í sambandi við gengislækkunina. að ef að þeirri leið væri horfið, þyrfti að tryggja aukna atvinnu í landinu. svo að atvinnuaukningin bætti upp þá verðhækkun sem yrði vegna gengislækkunarinnar. En þar sem ekki virtist unnt að setja neina ákveðna tryggingu fyrir atvinnuaukningu. er leiddi af gengislækkun. einbeindi Alþýðuflokkurinn áhrifum sínum í þá átt, að jafnframt gengislækkuninni væru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja það, að afkoma alþýðunnar í landinu yrði ekki hlutfallslega verri eftir að sú tilraun væri gerð en hún er nú. Allverulegum atriðum fékkst framgengt í þessu efni.

Þar sem Alþýðuflokkurinn lét nokkuð til sín taka afgreiðslu þeirrar löggjafar, sem sett var í samband við gengislækkunina, er honum ljóst, all framkvæmd þessarar löggjafar og mála í sambandi við hana sé næsta mikils virði, og þess vegna sé það rétt og eðlilegt, að áhrifa Alþýðuflokksins gæti þar einnig.

Alþýðuflokkurinn telur það mjög nauðsynlegt, að gerðar verði öflugar ráðstafanir til þess að draga úr þeirri dýrtíð, sem gengishækkunin hlýtur að hafa í för með sér, og að þess vegna verði að beita verðlagseftirliti og húsaleigulögum í þessu skyni með öruggri framkvæmd. Vegna hins mikla atvinnuleysis, sem ríkir í landinu, telur Alþýðuflokkurinn, að halda beri uppi opinberum verklegum framkvæmdum og atvinnubótum eins og verið hefir undanfarin ár, um leið og reynt er að láta opinberu framkvæmdirnar og atvinnubæturnar stuðla að aukinni framleiðslu í landinn. Vegna afkomu almennings telur Alþýðuflokkurinn og nauðsynlegt, að tollar á nauðsynjum verði ekki auknir, en gerðar ráðstafanir til þess að ná sköttum af vaxtafé.

Alþýðuflokkurinn mun að sjálfsögðu leggja áherzlu á það, að félagsmálalöggjöf sú, sem sett hefir verið hin síðustu ár og flokkurinn hefir staðið að, verði uppi haldið og framkvæmd eftir því, sem ástæður leyfa.

Eins og hæstvirtur forsætisráðherra hefir lýst yfir, hlýtur það að vera eitt af aðalhlutverkum ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar að gera allt, sem unnt er, til þess að örva framleiðslustarfsemina og efla atvinnulífið í landinu. Í því skyni þarf að stefna að því, að allur hæfur fiskiskipastóll landsins verði tekinn til útgerðar og greitt fyrir einstaklingum og félögum í því skyni. Um leið þarf að tryggja fé og gjaldeyri til nauðsynlegrar endurnýjunar og aukningar á skipaflotanum, og að veita styrki og lán á svipaðan hátt eins og gert hefir verið á síðustu tímum.

Til þess að halda uppi hagnýtri byggingaratvinnu og koma á aðkallandi aukningu húsnæðis. þarf að tryggja, að lögð verði fram millj. kr. 1939 og ½ millj. kr. 1940 sem lán og styrkir til byggingar verkamannabústaða í Reykjavík, og samsvarandi upphæð miðað við íbúatölu og þar sem skilyrði eru fyrir hendi, í öðrum bæjum og stærri kauptúnum, sem lagt geta fé á móti svo sem lög áskilja.

Alþýðuflokknum er það vel ljóst, að samstarf það, sem nú er að hefjast um stjórn landsins, er nokkuð með nýjum hætti. En þeir tímar, sem nú standa yfir, eru vissulega óvenjulegir. Inn á við ótal örðugleikar í atvinnuháttum og út á við blika ófriðar og óvissu. Lýðræðið á víða í vök að verjast. Einræðisöflin hafa skotið upp kollinum hér á landi eins og annarstaðar. Alþýðuflokknum þykir því rétt, eins og á stendur, að gera tilraun til þess að sameina lýðræðisöflin í landinu til sameiginlegra átaka á hættutímum. Hvernig sú tilraun gefst, mun reynslan leiða í ljós. Alþýðuflokkurinn gengur til þessa samstarfs í trausti á lýðræðið, þjóðfélagslegar umbætur og réttlæti í félagsmálefnum. Á meðan stjórnarsamstarfið getur byggzt á þeim grundvelli, mun flokkurinn ekki skorast undan ábyrgð á stjórnarframkvæmdum og sýna fullan vilja sinn til einlægs samstarfs.