18.04.1939
Sameinað þing: 6. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

Stjórnarskipti

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég vil nota tækifærið til að senda hinni nýju ríkisstjórn góðar óskir nú um leið og hún sezt á valdastól.

Það hefir lengi verið skoðun mín, að svo væri nú komið um afkomuhorfur og fjárhag vorn, inn á við og út á við, að sýnt mætti telja, að sú stjórn, sem farið hefir með völd hingað til, gæti ekki sigrazt á þeim erfiðleikum.

Þetta hefir nú verið viðurkennt á borði af þeim flokkum, sem þá stjórn studdu, og tel ég það virðingarvert.

Ég vil, a. m. k. þar til annað reynist, taka það sem vott þess, að annar og nýr andi sé nú að verða ráðandi í þessum flokkum, og vil ég þá óska þeim til hamingju með þá veðrabreytingu og óska, að hún verði varanleg.

Ég tel skylt að styðja að því, að nýja stjórnin fái sem fyllstan vinnufrið til að starfa að þeim mörgu og erfiðu verkefnum, sem nú kalla að. Og mun afstaða Bændaflokksins til þeirrar vantrauststillögu. sem nú var boðuð, miðast við það.

Bændaflokkurinn mun geyma sér dóminn um nýju stjórnina og störf hennar þangað til jafnóðum og verk hennar kom í ljós.

En ég vil óska þess, að henni takist að halda svo á málum, að hún verðskuldi langa lífdaga.