10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Ég hafði gert ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. myndi taka aftur brtt. sína til 3. umr. En ég tók ekki eftir því, að hann gerði það í ræðu sinni, og mun það því ekki vera meining hans. Annars kemur mér sumt í afstöðu þessa hv. þm. óskiljanlega fyrir, og skal ég nefna það, að hann skýrir frá því, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi sent erindi til sjútvn. og beðið hana að flytja ákveðna brtt. um þetta. Vegna þessara tilmæla, sem sjútvn. eiga að hafa borizt, segir hann, að hann og hv. þm. Borgf. flytji brtt. þá, sem hér liggur fyrir. Mér virðist, að þetta sé að fara aftan að siðunum, þegar þessir 2 ágætu þm. fara að flytja brtt., sem sjútvn. kann að hafa verið beðin að flytja, áður en n. fær hana til meðferðar.

Mér þykir það líka undarlegt, sem hv. þm. var að upplýsa, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi einum rómi samþ. mótmæli gegn frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég get ekki betur munað en hv. þm. Ísaf. sé í stjórn verksmiðjanna, en í sjútvn. mælti hann með frv. Eitthvað hlýtur að vera bogið við þetta, því hann hefir varla tekið aðra afstöðu í sjútvn. heldur en í stjórn síldarverksmiðja ríkisins.

Eins og tekið hefir verið fram, er ákvæðið í verksmiðjul. þannig, að gjaldið, sem verksmiðjunum er gert að greiða, má ekki fara fram úr 25% af álögðum útsvörum viðkomandi hreppseða bæjarfélags. Þetta snertir ekki þann stað, þar sem verksmiðjureksturinn er mestur, því útsvörin á Siglufirði eru það há og hljóta í framtíðinni að vera það há, að verksmiðjurnar munu ekki greiða nálægt því 25% af útsvörunum. Það skiptir því ekki neinu máli fyrir greiðslu verksmiðjanna á Siglufirði, hvort upphæðin má vera 25% eða 50%. En í 2 hreppum, þar sem ríkið hefir verksmiðjur, í Presthólahreppi og Flateyrarhreppi, getur þetta ákvæði komið sér illa. Það er ekki rétt athugað, að þetta snerti eingöngu verksmiðjuna í Presthólahreppi, því það snertir verksmiðjurnar á Sólbakka og á Raufarhöfn. Ef þetta hefði verið komið í gildi 1937, þá hefði það verkað þannig, að Presthólahreppur hefði ekki fengið ½% af framleiðslunni. Hinsvegar skiptir þetta ekki verulegu máli fyrir verksmiðjuna. Árið 1937 mundi þetta hafa numið 2–400 kr., og ef verksmiðjureksturinn ykist, þá mundi það verða eitthvað meira. — Eins og menn sjá, þá er þarna um að ræða ástæðulaust ranglæti gagnvart 2 hreppsfélögum.

Brtt. hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. fjallar í fyrsta lagi um það, að lækka 50% niður í 40%, og er það ekki mikill munur, og get ég ekki skilið, hvers vegna hv. þm. hafa verið að bisa við að gera þá breyt. Í öðru lagi fer brtt. fram á það, að þar, sem verksmiðjur eru, skuli ekki greiða af þeim fasteignaskatt til bæjar- og sveitarsjóða. Þetta mun sérstaklega koma niður á Siglufirði. Ég veit ekki, hvað það nemur miklu, en ég hefi heyrt, að það muni vera nokkur fúlga, sem hann yrði sviptur með þessu. En um þetta má náttúrlega deila, en ég get þó ekki fallizt á, að þótt ríkisverksmiðjurnar verði að greiða fasteignaskatt, þá verði þær verr settar en verksmiðjur einstakra manna, því hann er á sama hátt lagður á verksmiðjur einstakra manna.

Hv. þm. drap á það áðan, að reglugerð hafi verið staðfest, sem geri það að verkum, að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði lendi í háum skattflokki. Ef um reglugerðarákvæði er að ræða, þá er sú leið fyrir hendi að breyta reglugerðinni.

Í sjálfu sér er hér að ræða um brtt., sem er stærra efnis heldur en frv. sjálft, og get ég ekki fellt mig við, að hún nái fram að ganga að svo stöddu, þótt ég hafi ekki umboð til að tala fyrir n. hönd.