10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Í sambandi við umr. hér um brtt. á þskj. 40 vildi ég beina því til hv. flm., hvort þeir gætu ekki tekið brtt. aftur til 3. umr., svo að sjútvn. geti fengið hana til athugunar áður en gengið er frá málinu. En ef þeir sjá sér það ekki fært, vildi ég gera það að till. minni, að málinu verði vísað aftur til sjútvn. til nánari athugunar.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um fasteignagjaldið, vil ég taka það fram, að þegar l. um tekjustofna bæjar- og sveitarfél. voru afgr. í fyrra, voru undanskildar slíkum gjöldum ákveðnar upptaldar fasteignir, og það hefir ekki verið athugað, þegar l. voru sett, að undanþiggja síldarverksmiðjur ríkisins. Vegna þess að upptalningin á fasteignum, sem eru undanþegnar þessu gjaldi, er tæmandi, er ekki hægt fyrir ráðuneytið að gera þar á breyt., og við staðfesting á reglugerðum er það eitt hlutverk ráðuneytisins að athuga, að reglugerðarákvæðin séu innan þess ramma, sem l. setja. Það er ósanngjarnt, að síldarverksmiðjur ríkisins greiði þessi fasteignagjöld í viðbót við umsetningargjöld, og með því að ákveða ½% gjaldið hefir þingið vafalaust ætlazt til, að verksmiðjurnar væru lausar við frekari gjöld til bæjar- og sveitarsjóða. Ég er því samþykkur brtt. að því er þetta atriði snertir. Það er réttlátt, að síldarverksmiðjurnar séu undanþegnar þessu gjaldi, og vegna þess, hvernig gengið var frá l. um fasteignagjald í fyrra, er ekki hægt að gera þetta nema með nýrri lagasetningu.

Ég tel rétt, að sjútvn. fái tækifæri til að athuga till. í heild, og vildi óska, að flm. tækju hana aftur til 3. umr.