03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Finnur Jónsson:

Ég vil leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þeim ástæðum, er til þess liggja, að ég hefi gerzt meðflm. þessa frv. Og ég vil taka það fram um leið, að við alþflm. áskiljum okkur rétt til þess að hafa óbundnar hendur um afstöðu til brtt. við frv., sem fram kunna að koma.

Svo sem kunnugt er, hefir undanfarandi verið starfandi milliþn. í sjávarútvegsmálum. Er þetta önnur milliþn., er að þessu starfar á sex ára tímabili. Rannsókn þessarar milliþn. hefir leitt í ljós það, sem raunar áður var alkunnugt, að hagur sjávarútvegsins er mjög bágborinn.

Togaraútgerðin er komin á fallandi fót. Aðeins ¼ hluti togaraútgerðarfyrirtækjanna er talinn eiga fyrir skuldum, og undanfarið hefir undantekningarlítið verið stórtap á togara hverjum árlega. Skipin eru orðin gömul, þau eru að hverfa úr sögunni, og ekkert kemur í staðinn. Endurnýjun togaraflotans hefir verið alveg vanrækt. Vegna hinnar miklu áhættu, er útgerðinni fylgir, hliðra menn sér hjá að leggja fram fé til hennar, og láta það heldur í verzlun eða iðnað, þangað, sem þeir telja, að sé meiri hagnaðar von. Þetta er staðreynd, sem ekki tjáir í móti að mæla. Fjármagn, sem lagt er í verzlun eða ýmsan þann iðnað, sem enn er rekinn hér á landi, skapar oft litla atvinnu, að tiltölu við fjárhæð þá, er í atvinnugreinum þessum er bundið, samanborið við fé það, sem lagt er til útgerðar. Það er þess vegna þjóðarnauðsyn að reyna að beina fjármagni landsmanna frá verzluninni og iðnaðinum aftur í sjávarútveginn.

Þetta næst ekki meðan telja má hvern eyri tapaðan, sem í hann er lagður. Alþfl. hefir hvað eftir annað bent á þá miklu nauðsyn, sem á því er að endurnýja togaraflotann. Og í sambandi við afgreiðslu þessa máls má nú loks telja tryggt, að gjaldeyrir fáist til þess, að einn nýtízkutogari bætist við flotann. Verður þetta, ásamt hinum nýja togara h. f. Alliance, vonandi upphaf að endurnýjun togaraflotans.

Mjög hefir verið um það deilt, hverju töpin á togaraútgerðinni eru að kenna. Meðan hátt verð var á sjávarafurðum, voru togararnir mesta gullnáma, og höguðu sumir eigendurnir sér eins og náman væri óþrjótandi, en síðan þorskurinn féll í verði og saman fór lágt afurðaverð og aflatregða, er enginn vafi á, af hverju hin miklu árlegu töp togaranna stafa að langmestu leyti. Eflaust má með samkaupum á útgerðarvörum og með því að gæta hins ýtrasta sparnaðar í hvívetna draga nokkuð úr töpum togaranna, en þó er augljóst, að þetta hrekkur ekki nándar nærri til. Verð afurðanna verður að hækka, ef von á að vera til, að togararnir geti borið sig og togaraflotinn fengið þá endurnýjun og aukningu, sem nauðsyn ber til vegna atvinnu sjómanna og verkamanna.

Um línuveiðagufuskipin er það vitað, að hagur þeirra er sízt betri en togaranna, þrátt fyrir skuldaskilin, er eigendur þeirra fengu á árinu 1937.

Vélbátaútvegurinn mun yfirleitt standa betur að vígi en togaraútvegurinn. Skipin eru flest nýrri og ekki eins viðhaldsfrek. Allur þorri eigendanna fékk skuldaskil á árinu 1936, og auk þess hefir síldveiðin oftast nær gefið tiltölulega meira af sér fyrir vélbátaútgerðina en togarana. Samt eta þorskveiðarnar hin síðari ár venjulega hagnað vélbátanna af síldveiðunum, og oft meira til. Hætt er því við, ef ekki verður eitthvað að gert, að hagur vélbátaeigenda sæki í sama horf og fyrir skuldaskilin.

Milliþinganefndin, er rannsakaði hag sjávarútvegsmanna, hefir komizt að sömu niðurstöðu og raunar allir, sem eitthvað hafa um þessi mál fjallað, að bráðra aðgerða þurfi til bjargar sjávarútveginum. Alþfl. hefir á hverju þingi, síðan hann fékk stjórnaraðstöðu á árinu 1934, beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Síldartollinum var breytt í verðtoll, síldarverksmiðjur ríkisins auknar, síldarsalan og saltfiskssalan skipulögð, fiskimálanefnd stofnuð og lagt fram fé til styrktar byggingu hraðfrystihúsa, niðursuðuverksmiðja og ýmislegs þess, er sjávarútveginn varðar. Farið er að styrkja byggingu vélbáta til fiskveiða, byrjað er að efla fiskveiðasjóð og búið að létta af tollum af kolum og salti til útgerðar. Allt er þetta til hins betra. En reynslan hefir, því miður, sýnt, að það nær of skammt. Þegar að því er komið, að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar er þannig á vegi staddur, að hann getur ekki borið sig, þá er fram undan er hrun og atvinnuleysi, þá er úr vöndu að ráða.

Menn greinir hér sem endranær á um leiðir. Kommúnistar vilja taka lán til þess að bæta úr vandræðunum. Peningarnir eru að vísu ekki til hér á landi, en kommúnistar segja, að ekki sé annar vandinn en að snúa sér til „elsku Sturlu“ og þá muni „pabbi Jónsa“ leggja fram peningana. Að hinu er ekki gætt, að einhverntíma þurfi að borga lánin. Fáist engin verðhækkun á sjávarafurðum, heldur útgerðin áfram að tapa, og svo ætti líklega að borga hin nýju stóru lán með nýjum stórum töpum. Ég tel mjög hæpið, að nokkur geri sig ánægðan með slíka borgun. Ekki einu sinni barónsfjölskylda Héðins Valdimarssonar, þótt hún sé eflaust mesta gæðafólk.

Þá hafa kommúnistar einnig gert aðra uppástungu um að leysa vandræði sjávarútvegsins, en hún er sú, að setja upp útgerðarsovét í hverri verstöð til þess að kenna útgerðarmönnum að gera út. Útgerðarráð þessi eiga að hafa eftirlit með öllu smáu og stóru í rekstri útgerðarinnar. Eftirlitið á að byrja á bókhaldinu í skrifstofunni, — ná til alls, sem nöfnum tjáir að nefna á sjó og landi, og meira að segja til vélanna í skipunum. Útgerðarráðið á, að því er stendur í frv., að hafa stöðugt eftirlit með hirðingu og ástandi véla veiðiskipaflotans. Engin áætlun liggur fyrir um, hvað slíkt myndi kosta, en sennilega yrði það aldrei minna en núverandi stjórnarkostnaður útgerðarinnar. Það er hlegið um landið þvert og endilangt að þessum svonefndu viðreisnartillögum kommúnista, að svo miklu leyti sem nokkrum manni getur verið hlátur í huga á þessum örðugu tímum.

Þeim, sem athuga þessi mál með festu og alvöru, ber saman um, að ekki sé nema um tvær leiðir að velja til þess að bæta úr vandræðum sjávarútvegsins, annaðhvort styrkjaleiðina, sem fulltrúi Alþfl. í milliþn. stakk upp á og ekki fékkst þingmeirihluti fyrir, eða þá leið, er stungið er upp á í frv. því, sem hér er til umræðu. Flestir alþýðuflokksmenn hefðu heldur kosið hina fyrri leiðina og talið hana heppilegri, og voru um þetta nokkuð skiptar skoðanir, en allir alþýðuflokksmenn eru sammála um það, að vandræði sjávarútvegsins verði að leysa, eftir því sem unnt er, og það tafarlaust. Hvorki þjóðfélagið sem heild né heldur hinar vinnandi stéttir geta þolað það, að sjávarútvegurinn hrynji. Þjóðfélagsbyggingin sjálf myndi þá jafnframt hrynja, og sjómenn og verkamenn, sem einskis mega missa af þeirri litlu atvinnu, er þeir hafa, verða undir í rústunum. Hver vill bera ábyrgð á því ástandi? Hvaða alþingismaður telur sig geta horft aðgerðarlausan upp á slíkar hörmungar? Engir aðrir en öfgaflokkarnir, sem óska eftir, að allt fari í öngþveiti í landinu, til þess svo hvor um sig að kalla á sinn hjálpara til að skakka leikinn!

Það er almennt orðið viðurkennt, að bankarnir hafi undanfarið keypt íslenzku krónuna af útflytjendum undir verði. Og hvað er þá í rauninni annað en sanngirni að breyta gengisskráningunni? Þegar athugað er ástand sjávarútvegsins annarsvegar og ástandið í gjaldeyrismálunum hinsvegar, var alveg auðsætt, að verðbreytingunni varð ekki afstýrt. Hún hlaut að koma innan skamms tíma. Um tvær leiðir var þá að velja. Önnur var sú, að bíða eftir hruninu, sem þá gat hæglega orðið óstöðvandi; hin leiðin var sú, sem hér er lagt til, að sé farin, breyta gengisskráningunni í tíma, meðan hún var viðráðanleg og meðan hægt var að gera ráðstafanir í sambandi við hana.

Alþfl. hefir undanfarnar vikur átt tal við Framsfl. og Sjálfstfl. Og eins og ætíð endranær hefir það verið okkar hlutskipti, alþýðuflokksmannanna, að halda fram málstað verkamanna, sjómanna og annarra láglaunamanna. Eftir atvikum tel ég, að þetta hafi tekizt vel. Gengisbreytingin er að vísu neyðarráðstöfun, en á neyðartímum verður oft að gera neyðarráðstafanir til þess að bjarga því við, sem bjargað verður. Það er ekki unnt að gera ráðstafanir til styrktar aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum, sem að gagni koma, án þess að slíkt komi nokkuð þungt niður. Í frumvarpi því, sem fyrir liggur, er kauphækkun almennt bönnuð til 1. apríl 1910. Þó hefir Alþfl. með samningum sínum komið því þannig fyrir, að þetta bann gildir ekki um verkamenn, sjómenn og láglaunaða fjölskyldumenn úr öðrum stéttum. Þeirra kaup skal bætt nokkuð, ef dýrtíðin eykst, þó annað kaup verði ekkert hækkað. Athuga skal meðaltalsframfærslukostnað í Reykjavík og síðan bæta upp kaupið hjá þessum stéttum í fyrsta sinn 1. júlí 1939. Ef dýrtíðin hefir aukizt um meira en 5%, skal kaupið hækka sem nemur helmingi þeirrar hækkunar á framfærslukostnaði, sem orðið hefir, ef hækkunin nemur ekki yfir 10%, en um 2/3 af því, sem hækkunin kann að vera yfir 10%. Næst getur kaupið síðan hækkað 1. jan. 1910, eftir sömu reglum, og svo aftur 1. apríl 1940, ef ekki annaðhvort verkamenn eða atvinnurekendur óska breytinga með 2 mán. fyrirvara fyrir 1. apríl það ár.

Þegar þess er gætt, að allflest stéttarfélög á landinu hafa samninga sína miðaða við áramót, og þá löglegan þriggja mánaða fyrirvara, og sum gætu jafnvel ekki sagt upp samningum fyrr en í maí næsta ár, og því enga kauphækkun fengið þangað til, verður að telja, að ákvæði frv. séu slíkum félögum hagkvæm. Af um 100 félögum í Alþýðusambandinu hafa ekki nema um 30 ákvæði um gengisbreyt. eða kauphækkun vegna vaxandi dýrtíðar. Og í mörgum þessum samningum eru ákvæði þessi ekki svo nákvæm sem skyldi og koma seint til framkvæmda. Önnur félög hafa engar slíkar varúðarráðstafanir gert. T. d. hefir Héðinn Valdimarsson gert samninga fyrir verkamannafélagið Dagsbrún, sem eru þannig úr garði gerðir, að félagið getur ekki hreyft kaupinu í 15 mánuði, hvað sem á dynur. Miða kauphækkunarákvæði frv. því beinlínis að því að vernda verkamenn í Rvík fyrir afleiðingum af hinni alkunnu ógætni Héðins Valdimarssonar eða jafnvel öðru enn verra. Jafnframt því sem frumvarpið skapar möguleika til kauphækkunar hjá ýmsum, sem vegna samninga sinna hefðu fengið hana seint eða ekki á tímabilinu, er í því ákveðið, að kaup samkvæmt kaupgjaldssamningum skuli að öðru leyti standa óbreytt til 1. apríl 1940.

Er því í frv. gert hvorttveggja, tryggður réttur þeirra félaga, sem engan gengis- eða dýrtíðarfyrirvara höfðu í samningum eða óheppilegan uppsagnartíma, en skertur réttur annarra, og þó miklu færri, til uppsagnar, og þannig gert ráð fyrir, að öll félögin njóti sömu kjara um hækkanir á kaupi.

Í frv. er hlutarsjómönnum tryggt, að þeir geti notið gengishagnaðar af afla sínum, og þeir, sem ráðnir eru upp á aflaverðlaun, skulu einnig njóta sama hagnaðar. Andvirði sjávarafurða stígur að sjálfsögðu við gengisbreytinguna, og ættu því hlutarmenn, sem undanfarin ár hafa oft haft mjög rýrar tekjur, að fá á þennan hátt verulegar kjarabætur. Síldarpremia togaraháseta ætti einnig að geta hækkað samkvæmt samningum um h. u. b. ½ eyri á mál.

Vera má, að spurt verði af einhverjum, hvers vegna þeir aðiljar einir saman, sem nefndir eru í frv., skuli fá kauphækkun, þegar bannað er að hækka kaup allra annarra. Er því til að svara, að einmitt þessar stéttir hafa orðið harðast úti undanfarin ár vegna vandræða sjávarútvegsins og vaxandi atvinnuleysis. Og þó þeim sé ekki að öllu leyti bætt upp dýrtíðin, verður að vænta þess, að aukningin, sem sennilega verður í sjávarútveginum, ætti að geta bætt þeim skaðann að fullu.

Þó telja megi réttlætismál gagnvart sjávarútveginum að breyta gengi krónunnar, verður því eigi neitað, að með því eru lagðar byrðar á þjóðina. Til þess að ekki sæki aftur fljótlega í sama horf fyrir útveginum, þarf að hafa hemil á dýrtíðinni. Í frv. er bannað að hækka húsaleigu til 14. maí 1940. Eflaust væri nauðsyn á að sjá um, að húsaleigan hækkaði eigi heldur að þeim tíma loknum. Slíkar ráðstafanir geta dregið úr byggingarframkvæmdum einstaklinga, og hefir Alþfl. í því tilefni fengið loforð ríkisstjórnar og Framsfl. fyrir ½ millj. króna í styrk og lánum til byggingar verkamannabústaða í Rvík hvort árið 1939 og 1940, og tilsvarandi í öðrum kaupstöðum, sem leggja fram fé í byggingarsjóði. Þá er og yfirlýst, að lögunum um eftirlit með verðlagi verði heitt til hins allra ýtrasta, enda nauðsynlegt vegna almennings, að ekkert verði látið ógert til að halda dýrtíðinni í skefjum. Enn hefir Alþfl. fengið yfirlýsingu frá Framsfl. um, að ekki verði á fjárlögum dregið úr verklegum framkvæmdum né framlagi til atvinnubóta, og ennfremur, að óbeinir tollar verði ekki auknir umfram það, sem nú er í frv. þeim, er fyrir liggja. Ætti þetta allt að verða til öryggis fyrir hina lægra launuðu stéttir, sem jafnframt eiga að hafa gagn af væntanlegri atvinnuaukningu.

Þegar gripið er til slíkra ráðstafana, sem gert er ráð fyrir í frv., verður að gera þá kröfu til útgerðarmanna, að þeir geri allt, er í þeirra valdi stendur, til að koma útgerðinni í það horf, að hún geti borið sig, bæði með því að gæta allrar hagsýni og sparsemi í rekstrinum, og ekki sízt á þann hátt að efna til sameiginlegra innkaupa fyrir alla útgerð landsmanna á öllum helztu nauðsynjum útgerðarinnar, svo sem olíu, kolum, salti og veiðarfærum. Við höfum á þessum síðustu tímum mátt horfa upp á það, að einstök verzlunarfyrirtæki og einstaklingar hafa bókstaflega rakað saman stórfé á því að selja vörur til útgerðarinnar, á sama tíma og útgerðin hefir stórtapað. Þessir alóþörfu milliliðir, sem eru afætur á útgerðinni, verða að hverfa.

Gengisbreytingin getur varla verið annað en bráðabirgðalausn, og framtíð útvegsins getur ekki byggzt á henni einni saman. Til hennar má ekki gripa nema í ýtrustu nauðsyn, eins og hér er lagt til. Með henni er útgerðarmönnum gefið færi á að koma útgerðinni á heilbrigðan grundvöll, og þeir verða þess vegna að leggja fram alla krafta sína til þess, að svo megi verða. Krónuna á að stöðva á því verði, sem í frv. er lagt til, en jafnframt verður að stöðva töp útgerðarinnar.

Þó svo sé komið hér í Reykjavík, að bæjarbúar lifi ekki nú orðið nema að litlu leyti á sjávarútvegi, þá er langmestur hluti útflutnings okkar úr sjónum. Án útflutnings kemur enginn gjaldeyrir til landsins. Allur atvinnurekstur þarf einhvern gjaldeyri og getur ekki án hans starfað. Sjávarútvegurinn er þannig grundvöllur undir öllum öðrum atvinnuvegum landsmanna. Stöðvun eða hrörnun sjávarútvegsins myndi orsaka stöðvun eða hrörnun annarra atvinnuvega. Engin getur því sagt, að mál hans séu sér óviðkomandi.

Menn greinast sem von er til í flokka um gengismálið, og raunar ekki eftir stjórnmálafl. því að innan hvers einstaks stjórnmálaflokks í landinu ríkja hinar gagnstæðustu skoðanir um málið. Einkum mun andstaða gegn gengisbreytingunni vera mikil hér í Reykjavík. Úti um landið í sjávarþorpunum, þar sem menn lifa á sjávarútvegi, er skilningur manna á þessu máli hinsvegar miklu meiri. Útgerðarmálin eru þar nærstæðari hugum manna, og menn litu ekki björtum augum á framtíð útgerðarinnar í haust.

Sameiginleg yfirlýsing fulltrúa Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. í milliþinganefnd sjávarútvegsmála um, að nauðsyn bæri til að styrkja sjávarútveginn, vakti því mikla ánægju á meðal manna í sjávarplássum úti á landi. Þetta vakti vonir hjá mönnum, og allmörg skip, sem annars hefðu staðið uppi, voru gerð út á yfirstandandi vertíð. Yfirlýsing þessi ein saman hefir þannig örvað atvinnulífið frá því, sem annars hefði verið, en eftir hinum lofuðu ráðstöfunum hafa menn síðan beðið með eftirvæntingu.

Síðan í þingbyrjun hafa menn svo sífellt verið að spyrja, hvað málum sjávarútvegsins liði. Ýmsir hafa verið orðnir vondaufir um nokkurn árangur.

Fjöldi manns átti alla afkomu sína undir, að lausn fengist á máli þessu, og margir voru að missa þolinmæðina. Eftir hina sameiginlegu yfirlýsingu þessara þriggja flokka hefði það orðið mikill álitshnekkir fyrir þingræðið í landinu, ef ekki hefði náðst samkomulag um lausn málsins. Ég tel lausn þá, sem lögð er til í frv., eftir atvikum mjög viðunandi fyrir umbjóðendur Alþfl., enda var hún sú eina, er þingræðislegt samkomulag náðist um. Ég hefi þá vissu trú, að þegar farið er að ræða málið frá báðum hliðum í blöðunum, en ekki eingöngu, eins og gert hefir verið, aðeins með öfgum og blekkingum, muni menn sannfærast um, að þetta var það eina rétta, sem hægt var að gera í málinu, og ég vona, að reynslan eigi eftir að sanna þetta.