10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Ég sé satt að segja enga ástæðu til þess. að þetta mál verði tekið af dagskrá. Það er þegar búið að taka það tvisvar af dagskrá vegna þessarar brtt., sem hér er á ferðinni, og virðist vera óþarft að taka það nú í þriðja sinn af dagskrá. — Ég vil benda á tvær leiðir í þessu máli. Fyrri leiðin, sem er eðlilegri, er sú, að flm. taki til. aftur, og þó að till. verði felld nú, þá er leið til þess að taka hana upp aftur fyrir 3. umr., ef mönnum sýnist ástæða til þess.

Þá vildi ég leiðrétta þann misskilning hjá hv. þm. Borgf., að eins og löggjöfin er nú geti komið til mála, að verksmiðjan á Raufarhöfn greiði 15 þús. kr. útsvar til hreppsins. Til þess að þetta gæti átt sér stað, þyrftu álögð útsvör í hreppnum að vera 60 þús. kr., eða nærri því þreföld við það, sem þau eru nú. Þetta er því megnasti misskilningur hjá hv. þm.

Það er oft um það talað, að þeir staðir, þar sem verksmiðjum hefir verið komið á fót, njóti svo mikilla hlunninda við það, að ekki væri nema sanngjarnt að sleppa slíkum fyrirtækjum við að greiða skatt. Þetta kann að virðast réttlát kenning, en þó hygg ég, að í henni séu talsverðar veilur, sem myndu koma í ljós, ef kenningin yrði útfærð. Það er svo með hverskonar atvinnufyrirtæki, hvort sem þau eru rekin af ríkinu eða öðrum, að þau eru að vissu leyti til hagsbóta fyrir þann stað, sem þau eru starfrækt á, þar sem þau veita atvinnu og auka umsetningu. En mönnum dettur samt sem áður ekki í hug að útfæra þá kenningu, að hvert atvinnufyrirtæki eigi að vera laust við öll opinber gjöld, vegna þess að slíkt er ekki mögulegt. Mér virðast því vera allmiklar veilur í þessum hugsunarhætti. Og þótt engan veginn sé vert að gera lítið úr þeim hlunnindum, sem slík atvinnufyrirtæki veita, þá er það nú svo, að þau hafa líka í för með sér aukin útgjöld fyrir viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóði. Meðal þess fólks, sem sækir atvinnu á þessa staði, eru alltaf einhverjir, sem þurfu á opinberri hjálp að halda. Auk þessa koma til greina ýms opinber störf, sem hljóta að hafa allmikil útgjöld í för með sér. Það er því ekki rétt að benda eingöngu á hagnaðinn, heldur verður einnig að líta á hina hliðina. Og rökin, sem færð eru fram fyrir því, að þessi fyrirtæki ættu að vera laus við opinber gjöld, geta því ekki staðizt, þegar nánar er að gætt.

Hv. þm. Ísaf. var að kvarta undan því áðan, að á Siglufirði legðust ýmiskonar gjöld á þessar verksmiðjur, t. d. ½% gjaldið, fasteignaskattur, vörugjöld og önnur gjöld til hafnar og því um líkt. Ég skal ekki rengja hv. þm. um það, að slík gjöld hafi lagzt á þessi fyrirtæki á Siglufirði, og ég held, að þetta sé bending til þessa hv. þm. og annara, sem eru því sérstaklega fylgjandi að hafa sem mest af þessum verksmiðjum á Siglufirði. Ég benti á það hér á þinginu í fyrra, þegar verksmiðjumálið var til umr., að þessi stefna, að stækka stöðugt verksmiðjurnar á Siglufirði, væri ekki allskostar holl. En þetta fékk engan byr. Sú síðasta stækkun, sem gerð hefir verið á verksmiðjunum, var gerð á Siglufirði með góðu samþykki þessa hv. þm. og allrar stj. síldarverksmiðjanna.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég hefi fram að taka viðvíkjandi þessu máli. Eins og ég hefi áður sagt, tel ég ekki ástæðu til þess að taka málið af dagskrá, en ef brtt. verður ekki tekin aftur, mun ég greiða atkv. á móti henni.