10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vildi leyfa mér, til viðbótar við það, sem ég sagði áðan, að benda hæstv. ráðh. á, að 1. frá 1937 um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna voru sett með samkomulagi flokkanna, enda hafði starfað mþn. í því augnamiði að finna leið til þess að afla bæjar- og sveitarsjóðum nægilegra tekna.

Í 1. og 4. gr. l. eru ákvæði um það, hversu skatturinn megi vera hár og af hvaða húseignum hann eigi að greiðast og hvaða eignir séu undanskildar. Og eins og hæstv. ráðh. tók fram, hlýtur að vera ætlazt til þess, þegar um tæmandi upptalningu er að ræða, að heimilt sé að leggja skatt á aðrar eignir en þær, sem sérstaklega eru undanskildar. Af þessum ástæðum á hæstv. ráðh. að staðfesta þá samþykkt, sem bæjarstj. á Siglufirði gerði um gjald af síldarverksmiðjum ríkisins til bæjarsjóðs. Það mætti segja, að það væru allt að því brigðmæli, ef nú yrði farið, þvert ofan í þetta samkomulag, að rýra tekjur Siglufjarðar og annara þeirra kaupstaða, sem vildu nota þessa heimild, með því að afnema þessa heimild í l.

Þegar hv. þm. Borgf. er að tala um hina góðu aðstöðu, sem Siglufjarðarkaupstaður hafi vegna þessara síldarverksmiðja, sem þar hafa verið reistar, þá er það rétt, að þær hafa veitt Siglufirði aukna atvinnu. En það verður líka að gæta að því, sem staðreyndirnar segja, að Siglufjarðarkaupstaður hefir ekki getað risið undir sínum gjöldum og orðið að leita til Alþ. með ýms erindi, til þess að afla viðbótartekna. Nú hefir bærinn gert ráð fyrir þessum tekjustofni, og nær engri átt, að Alþ. fari að svipta 23 þús. kr. tekjum frá bænum.

Ef hv. þm. Borgf. getur með sanngirni bent á aðra heppilegri leið til þess að ná inn þessum tekjum, þá gerir hann það sjálfsagt. En ég hygg, að það sé ekki hægt. Og hvorki hv. þm. Borgf. né hv. þm. Ísaf. getur neitað því, að þau gjöld, sem verksmiðjurnar á Siglufirði greiða til bæjarsjóðs, eru miklu lægri heldur en greitt myndi vera af samskonar fyrirtækjum, ef þau væru í einstakra manna eign. Á það er líka að benda, að þessi rekstur var á sínum tíma í einstakra manna höndum, þótt hann væri ekki þá í eins stórum stíl og nú. Þá var fyrirkomulagið þannig, að þeir, sem höfðu viðskipti við Siglufjarðarkaupstað ákveðinn tíma. greiddu til hans visst útsvar. Ég hygg, að hv. þm. Borgf. myndi ekki óska eftir því, að þessu yrði breytt frá því, sem nú er, til þess, sem áður var, þannig að útsvörin yrðu framvegis lögð á þá, sem skipta við verksmiðjurnar. Ég fæ ekki heldur séð, að nein ósanngirni sé í því, þótt þeir, sem njóta þessarar góðu aðstöðu, sem Siglufjörður veitir, verði að leggja á sig einhver lítil gjöld til þess að standa undir þeim kostnaði, sem Siglufjörður hefir af þessum rekstri. Þegar þetta gjald, 23 þús. kr., skiptist á þá umsetningu, sem verksmiðjurnar hafa haft á Siglufirði, er ljóst, að sú upphæð er hverfandi lítil á hvern bát, sem leggur þar upp síld. Það getur ekki komið til mála, að ekki hefði orðið að greiða margfaldar þær upphæðir, ef gamla fyrirkomulaginu væri fylgt, sem sé að greiða útsvörin beint til bæjarsjóðs Siglufjarðar, enda verður því ekki neitað, eins og hv. þm. N.-Þ. tók fram, að Siglufjörður hefir haft allskonar útgjöld vegna þess, að síldarverksmiðjurnar eru þar. Og reynslan hefir orðið sú, að þrátt fyrir það, þótt síldarverksmiðjurnar á Siglufirði hafi stöðugt aukizt undanfarin ár. hefir afkoma bæjarins verið svo slæm, að ekki hefir verið unnt að reka bæjarfélagið nema með tapi. Og Siglufjörður er einn af þeim kaupstöðum, sem leitað hafa til skuldaskilasjóðs með beiðni um lán.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Borgf., að hér sé verið að koma inn heimild til þess að leggja á nýjan skatt. Heimildin liggur fyrir í l. frá 1937. Það, sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. vilja gera, er þetta: að afnema heimild til að innheimta skatt, sem lagður hefir verið á. (PO: Hann hefir aldrei verið lagður á fyrr en nú). Það kemur til af því, að reglugerðin hefir ekki verið staðfest fyrr. Hér er ekki um neinn nýjan tekjustofn að ræða, heldur heimild, sem áður hefir verið til.

Ef hv. þm. Ísaf. ber saman útsvör, sem verksmiðjur utan Siglufjarðar greiða, við þau gjöld, sem verksmiðjurnar á Siglufirði greiða með þessu ½% gjaldi, þá er það ekki réttur samanburður, vegna þess að útsvörin eru svo misjöfn, eftir því, hvar þau eru greidd. Það er eðlilegt, að útsvör verksmiðjunnar á Hjalteyri séu lægri en samskonar gjöld á Siglufirði, því öll gjöld til sveitarsjóðs Arnarneshrepps eru prósentvís miklu minni en samsvarandi gjöld á Siglufirði. Og ef síldarverksmiðjan á Hjalteyri væri komin til Siglufjarðar og í eign einstaks manns, myndi sjást, að gjöldin til bæjarsjóðs Siglufjarðar yrðu margfalt hærri en hliðstæð gjöld til sveitarsjóðs Hjalteyrar, og einnig miklu hærri en það, sem nú er greitt með ½% gjaldinu á Siglufirði.

Ef gera á slíkan samanburð og hér um ræðir, verður hann að vera gerður á fyrirtækjum, sem eru á sama stað og í einstakra manna eign. Ég vil því eindregið mælast til, að þessi till. hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. verði felld.