10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Þær umr, sem hér hafa farið fram um þetta mál, hafa aðallega snúizt um brtt. á þskj. 40. Ég ætla líka fyrst og fremst að snúa mér að þeirri brtt.

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þm., í sambandi við þessa brtt., að gera sér ljóst, hverskonar stefna þingið óskar eftir að tekin verði viðvíkjandi þeim bæjum, sem eru að rísa upp kringum okkar nýju verksmiðjur. Hvernig óskar Alþ. eftir, að þessir bæir verði? Eiga þetta að vera bæir, sem líta sóðalega út, þar sem menningarleysi ríkir og fólk hefir slæman aðbúnað? Eða á frá upphafi að sjá til þess, að þeir standi sig fjárhagslega, geti gert eitthvað fyrir sína íbúa og unnið að því, að þarna megi rísa upp menningarstöðvar? Það er þetta, sem við verðum að gera okkur ljóst, þegar rætt er um fjárbag þessara bæja.

Það er mikið talað um. að það sé hagur fyrir bæ eins og Siglufjörð að fá þangað verksmiðjur. En það verður líka að líta á hina hlið málsins, að verksmiðjueigendur gera kröfu til þess, að þarna sé verkalýður, sem vinni við allt þetta, og megnið af þessum verkalýð verður að vera þarna til taks, til þess að vinna 2–3 mánuði ársins. Og þó að þetta fólk reyni að flækjast á milli verstöðvanna, þá er afarerfitt að fá vinnu utan síns samastaðar, eins og nú standa sakir. Það hvílir því á bæjum eins og Siglufirði að sjá til þess, að nægilega mikið af verkalýð setjist þar að, og þá um leið að sjá þeim verkalýð fyrir sæmilegum aðbúnaði. Þess vegna er það skylda þjóðfélagsins — ekki sízt þegar tekið er tillit til þess, að um helmingur alls útflutnings landsmanna fer frá þessum stöðum, — að tryggja það, að þessir staðir séu ekki beittir rangindum og að þeim verði ekki með lagasetningum gert ómögulegt að notfæra sér þann auð, sem þarna hefir skapazt, til hagsbóta fyrir fátækasta hluta íbúanna.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að það væri ranglátt, að Siglufjörður notfærði sér heimildina til þess að leggja á fasteignaskatt, sem samþ. var á þinginu 1937, þegar hún væri ekki notuð af hálfu annara sveitarfélaga. Ég álít, að í stað þess að svipta Siglufjörð þessum réttmætu tekjum, væri nær að skylda hin sveitarfélögin til þess að leggja þennan skatt á líka, og sjá svo um. að þau notuðu hann til þess að búa betur að því fólki, sem í þessum sveitarfélögum býr. Hinsvegar finnst mér ekki ná nokkurri átt, einmitt þegar sýnd er viðleitni í þá átt að reyna að gera bæjarfélögin íslenzku sæmilega fjárhagslega stæð, að kippa fótum undan þeirri viðleitni. Nú ætlar Siglufjarðarbær að notfæra sér heimild þá um álagning fasteignaskatts, sem hér um ræðir, og gera stórkostlega tilraun til þess að reisa bæinn fjárhagslega við og hrinda í framkvæmd mörgum aðkallandi verketnum, sem lengi hafa beðið úrlausnar. Og það eru beinlínis hagsmunir ríkisins, að þetta megi sem bezt takast, svo að bærinn verði fjárhagslega sjálfum sér nógur.

Í sambandi við þau mörgu orð, sem hér hafa fallið um þau hlunnindi, sem ríkið veiti Siglufjarðarbæ með verksmiðjunum, vil ég benda á, að Siglufjörður veitir ríkinu ekki síður ýmis hlunnindi, og vil ég sérstaklega benda á varnargarð þann, sem nú er verið að byggja á Siglufirði, öldubrjótinn. Þessi öldubrjótur er beinlínis byggður til þess að vernda bryggjur ríkisverksmiðjanna fyrir sjógangi. Hann mun kosta, uppkominn, um 600 þús. kr., og manni virðist liggja nærri, að ríkisverksmiðjurnar eða ríkið ættu að borga megnið af þessari upphæð. En sannleikurinn er sá, að Siglufjarðarbær leggur fram ? hluta af þessum kostnaði, eða um 400 þús. kr. Má segja, að bærinn leggi að sínu leyti mjög mikið fram til þess að gera þessar eignir ríkisins öruggar og tryggja það, að þær geti verið arðbærar. (FJ: Er garðurinn byggður til verndar fyrir ríkisverksmiðjurnar?). Hann er a. m. k. hugsaður þannig. þótt bærinn hafi hinsvegar seinna fundið út, að það má nota hann sem upplagningarplan, en upphaflega var ekki ætlunin að nota hann til slíkra hluta.

Hv. þm. Borgf. virtist þeirrar skoðunar í ræðu sinni, að verið væri að beita þá útgerðarmenn. sem leggja upp á Siglufirði, sérstakri ósanngirni. Ég vil biðja þennan hv. þm., og aðra sömu skoðunar, að athuga, hvernig stendur á með þau gjöld, sem aðkomumenn, er atvinnu reka á Siglufirði, eru látnir borga þar. Þeir sleppa svo að segja algerlega við útsvar til bæjarins. Þess vegna finnst mér harla einkennilegt að telja það eftir, sem útgerðina munar ekkert um, eins og er með þennan fasteignaskatt og þetta ½% frá ríkisverksmiðjunum. Og ég vil minna á, að upphaflega var hér gert ráð fyrir 1%, en þessu var breytt í frv. og gjaldið lækkað niður í ½%.

Þá má ennfremur geta þess, í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. minntust á, að verksmiðjurnar yrðu að borga svo og svo mikið í bryggjugjöld, jafnvel þó að útskipunin færi fram á þeim bryggjum, sem þær ættu, að þessu er svo varið, að verksmiðjurnar nota hafnarbryggjurnar við alla sína útskipun, en samt verða hafnarbryggjurnar að sjá um almenna vegi og annað slíkt.

Ég vil sérstaklega vekja eftirtekt á því, að það er hin mesta skammsýni af þeim mönnum. sem bera hagsmuni útgerðarinnar fyrir brjósti, að beita sér móti því, að Siglufirði sé séð fyrir sæmilegum tekjum. Það er vitanlega eingöngu vegna þess, hvað Siglufjörður hefir verið illa stæður fjárhagslega, að vanrækt hefir verið að gera hitt og annað, sem brýna nauðsyn ber þó til, að búið væri að hrinda í framkvæmd fyrir löngu síðan. Má þar til nefna dýpkun innri hafnarinnar á Siglufirði. Er það eitt af þeim framkvæmdum, sem bærinn hefir hugsað sér að ráðast nú í, enda þarf það mál bráðrar úrlausnar við.

Þá má geta þess í sambandi við þennan fasteignaskatt, að um það leyti, sem hann var lagður á, munu aðrir skattar eða önnur gjöld, sem ríkisverksmiðjurnar urðu að greiða, hafa minnkað, eins og t. d. sjóvarnarskattur lækkaður um 5 þús. kr. Það er langt frá því, að þetta séu eins og aðrar tekjur fyrir Siglufjörð. Ég álít því mjög nauðsynlegt, að hv. þm. hafi þetta í huga um leið og rætt er um brtt. á þskj. 40, en hvað það snertir, er ég sammála því, sem hv. 7. landsk. (GÞ) hélt fram, að það væri óverjandi ráðstöfun að fara að svipta Siglufjörð þessum tekjum, sem hv. Alþ. hefir ákveðið með l., er samþ. voru fyrir nokkru. Ég er á móti brtt. á þskj. 40 og vil eindregið leggja til, að hún sé felld.