10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Þegar rætt er um þessi gjöld, sem nú hvíla á ríkisverksmiðjunum til viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga, finnst mér ekkert á móti því að athuga, hvað ríkisverksmiðjurnar greiddu áður en þessi nýju l. voru sett, sem sé l. um síldarverksmiðjur ríkisins og l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil, í tilefni af því, sem hv. 7. landsk. hélt fram, benda á það, að ríkisverksmiðjurnar voru undanþegnar útsvarsgreiðslu áður en ½% gjaldið af umsetningu þeirra var lögákveðið. Ég skal ekkert fullyrða um hugarfar hv. 7. landsk. þegar þessi l. voru sett, en ég vil halda því fram enn, eins og ég hefi áður bent á, að margir hv. þm. virðast ekki hafa komið auga á nauðsyn þess að undanþiggja síldarverksmiðjurnar fasteignagjaldinu, þegar lögin um það efni voru sett. Það má ennfremur benda á það, að þótt þessi heimildarl. væru sett, mátti láta sér til hugar koma, að þeir staðir, sem höfðu um leið fengið heimild til þess að leggja gjald á verksmiðjurnar, sem var miðað við umsetningu þeirra, létu sér þetta nægja, en notuðu ekki heimildina til þess að leggja á þær fasteignaskatt jafnframt. Ég vil því undirstrika það, að ég er sammála hv. þm. Borgf. um það, að þeir kaupstaðir landsins, sem hafa fengið síldarverksmiðjur, njóta ákaflega mikilla fríðinda við það, beint og óbeint, ekki aðeins vegna þess, að þessar verksmiðjur veita mörgum atvinnu í viðkomandi kaupstöðum, heldur einnig vegna mikilla viðskipta, sem þau skip hljóta að skapa, er leggja afla sinn á land hjá verksmiðjunum, og slíkt veitir viðkomandi kaupstöðum og þorpum mjög mikinn hagnað. Ég er ekki í minnsta vafa um það, að sérhvert bæjar- og sveitarfélag á landinu myndi fagna því, ef ríkið setti þar upp síldarverksmiðju eins og þær, er það hefir nú látið reisa á Siglufirði, og jafnvel þótt ekki væri heimiluð útsvarsálagning á þann atvinnurekstur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að taka fleira fram um þetta mál út af ræðu hv. 7. landsk., og ég tel ekki heldur ástæðu til að svara samherja hans, hv. 5. þm. Reykv. (EOl). Mér gekk illa að fylgjast með þræðinum í ræðu þess síðarnefnda. Það kom fram í ræðu hans, að hann taldi ríkið verða aðnjótandi sérstaklega mikilla hlunninda frá Siglufirði í sambandi við þau hafnarmannvirki, sem er verið að reisa þar á þessu ári. En þau fríðindi, sem hér er um að ræða, eru í því fólgin, að ríkið hefir fengið að borga nokkra tugi þúsunda kr. árlega til þessara hafnarmannvirkja. Það væri vafalaust hægt að fá fleiri bæjarfélög til að veita ríkissjóði svipuð hlunnindi. Ég vil svo endurtaka tilmæli mín til hv. flm. brtt. á þingskj. 40 (FJ og PO), að þeir taki hana aftur til 3. umr. þessa frv., svo að sjútvn. geti fengið hana til athugunar.