21.03.1939
Efri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Það gleður mig, að hæstv. atvmrh. virðist vera farinn að sjá, að hér getur ekki verið um neina leiðréttingu að ræða. Það er eingöngu hitt, að hann og aðrir, sem að þessu frv. standa, eru nú að sjá sig um hönd. Enda man ég, að þau rök komu fram gegn því að heimila að leggja þetta ½% gjald á framleiðslu verksmiðjanna að þess þyrfti síður vegna þess að nú yrði Siglufirði heimilað að leggja fasteignaskatt á verksmiðjurnar. Ég get ekki verið hæstv. ráðh. sammála um það, að það sé eðlilegt að setja þetta ákvæði inn í l. um síldarverksmiðjur og láta það þannig stangast við l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Það væri náttúrlega ekkert á móti því að setja það inn í l. um síldarverksmiðjur, ef tilsvarandi ákvæði væru þá sett inn í 1. gr. l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Hæstv. ráðh. benti á í þessu sambandi, að þetta væri hliðstætt ákvæðinu í l. um síldarverksmiðjur ríkisins um það, að verksmiðjurnar gyldu ekki útsvar. En þetta er alls ekki hliðstætt. Lögin um tekjur bæjar- og sveitarfélaga ákveða, að verksmiðjurnar skuli greiða fasteignaskatt í bæjar- eða sveitarsjóð, ef viðkomandi bæjar-eða hreppsfélag ákveður slíkt. Lögin ákveða þetta með því að taka ekki verksmiðjurnar undan, en útsvarslögin taka það hinsvegar fram, að opinber rekstur greiði ekki útsvar. Það er því samræmi milli verksmiðjulaganna og útsvarslaganna, en hér yrði hið mesta ósamræmi á milli.

Ég hefi getið þess, að ég teldi vafasamt að þetta frv. væri þannig, að það ætti að lifa af þessa umr. Nú skal ég að vísu játa það, að frv. eins og það var borið fram hafði allt annan tilgang en þann. sem það hefir nú, eftir þá meðferð, sem það hefir fengið í Nd. Ég mun því hætta á að greiða ekki atkv. á móti frv. til 2. umr., í þeirri von, að sú n., sem fær það til meðferðar, geti lagfært það eitthvað. Ég hefi í raun og veru ekki neitt á móti frv. í sinni upprunalegu mynd. Það er bara sú breyt., sem Nd. gerði á frv., sem ég er á móti og mun ekki geta sætt mig við.