03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil aðeins með nokkrum orðum svara hv. 3. þm. Reykv. Hann breiddi sig allmjög út yfir það, hversu allur undirbúningur þessa máls hefði verið með mikilli leynd. Já, öllu er nú hægt að slá fram. Að halda því fram, að allur undirbúningur þessa máls hafi verið með hinni mestu leynd er vitanlega hin mesta fjarstæða. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mikið hefir verið rætt. bæði í ár og síðastl. ár, um kjarabætur til handa sjávarútveginum, og hefir ekki verið rætt um nema tvær leiðir, gengislækkun eða útflutningsverðlaun. Þetta hefir bæði verið rætt í blöðum og á mannfundum. Hitt er annað mál, þó að það hafi ekki komið ákveðið fram, hvor leiðin yrði farin, enda mun það hvergi venja að tala opinberlega og ákveðið um gengislækkun, slík óvarfærni myndi geta haft hinar alvarlegustu afleiðingar, því að eins og vitað er, gripur fólk til ýmissa ráðstafana, þegar það á fastákveðið von gengislækkunar, — ráðstafana, sem geta haft hinar hættulegustu afleiðingar fyrir viðskiptalífið. Það mun því ekki dæmi þess, að

nokkur þjóð, sem fellt hefir gjaldeyri sinn, hafi tilkynnt það ákveðið áður. Þvert á móti hefir það oft átt sér stað, að því hefir verið lýst yfir, að allur orðrómur um gengislækkun hafi ekki við nein rök að styðjast, enda þótt gjaldeyririnn hafi kannske verið felldur litlu síðar. Með skírskotun til þessara ástæðna o. fl. óska ég því að fá mál þetta fram í dag, fellt eða samþykkt, svo að úr því verði hreint skorið, hvort fara eigi þessa leið til viðreisnar sjávarútveginum eða ekki.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. meðal annars, að stjórnin hefði leikið ýmsa innflytjendur, meðal annars kolakaupmenn, mjög grátt síðastl. haust með því að fá þá til að flyt ja inn kol o. fl. upp á greiðslu síðar. Þetta raus hv. þm. eru firrur einar, því að sannleikurinn er sá, að það var stjórnin sjálf, sem lét gera nokkur innkaup á kolum; skaðist því einhver á kolakaupum vegna aðgerða ríkisstj., þá verða það ekki einstakir kaupsýslumenn.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort líkur væru fyrir því, að gengið gæti staðið stöðugt hér eftir, og að ekki þyrfti að óttast nýjar gengisbreytingar. Hafi hv. þm. þá frú, að hægt sé að halda krónunni í núverandi gengi, þá hlýtur hann að skilja það, að ekki ætti að vera erfiðara að halda henni í 27 kr., miðað við sterlingspund, í stað 22.15, sem nú er.

Þá hélt þessi hv. þm. því fram, að með þessum ráðstöfunum væri alls ekki stefnt að því að hjálpa útgerðinni, heldur væri beinlínis verið að stela 22% af launum landsmanna. Þessi eða önnur slík ummæli eru vart svaraverð, þeim er kastað fram í augnabliksbræði, án minnstu athugunar um það, hvað verið er að segja. En sé þetta stuldur, hvað mættu þá framleiðendurnir segja, sem selt hafa gjaldeyrinn undanfarin ár, og það með sama verði nú og t. d. 1930, þegar fiskverðið var frá 108–160 kr. fyrir skippundið í stað 73–85 kr., sem fæst fyrir það nú. Dýrtíðarvísitalan var og hin sama 1929–30 og nú. Kaup verkamanna og sjómanna hefir og hækkað mikið frá þeim tíma, sem fiskverðið hefir lækkað um ca. 50%.

Það hefir áður verið gerð grein fyrir því, hve langt er gengið í frv. þessu til móts við sjómenn og verkamenn. svo að það verður aldrei nema lítið brot af þeirri verðhækkun, sem af verðlækkun krónunnar kann að leiða, sem lendir á þessum aðiljum, þar sem þeim er tryggð kauphækkun í hlutfalli við hækkandi verðlag á nauðsynjavörum, að ½ og 2/3 hlutum, auk þess sem þessar ráðstafanir hljóta að hafa í för með sér aukna atvinnu fyrir hinar vinnandi stéttir. Mun ég því ekki fara frekar út í umræður um þessa hlið málsins.

Eitt var það og enn, sem þessi hv. þm. taldi, að fylgja myndi í kjölfar gengisbreytingarinnar, en það var, að hún myndi stórskaða lánstraust landsins erlendis. Þessu er því fyrst og fremst að svara, að ég veit ekki betur en að ýms lönd hafi gripið til þessa úrræðis, svo sem England, Danmörk o. fl., en það hefir aldrei heyrzt, að slíkt hafi orðið þeim til tjóns, heldur hafi það þvert á móti orðið þeim til góðs. Eins hygg ég að verði hér, og það mun sannast, að erlendis

mun þetta yfirleitt verða talið okkur til gildis frekar en hitt, sem og ekki er að undra, þar sem þetta er beinlínis gert til þess að reyna að koma afkomu atvinnuveganna á réttan kjöl. Ég hræðist því ekkert dóm hinna erlendu fjármálamanna, sem þekkja til staðhátta hjá okkur og láta sér hag okkar einhverju skipta.

Þá var það og ein höfuðsynd stjórnarinnar í augum þessa hv. þm., að hún hefði látið undir höfuð leggjast að leitast fyrir erlendis um lánsmöguleika. Vil ég taka það fram, sem öllum hv. þm. er kunnugt, að ríkisstj. mun taka til yfirvegunar alla möguleika, sem fyrir liggja í þeim efnum, og notfæra sér þá, ef þeir skyldu reynast hagstæðir með tilliti til lántöku erendis. [Fundarhlé.]