25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Þegar ríkisverksmiðjurnar voru reistar á sínum tíma, voru þeim veiti þau hlunnindi, að þær skyldu ekki vera útsvarsskyldar eða þurfa að greiða tekjuskatt og eignarskatt til ríkissjóðs. Til grundvallar fyrir þessu mun hafa legið það, að þær voru byggðar sem atvinnufyrirtæki með hag almennings fyrir augum sérstaklega. Mun hafa verið litið svo á, að alþjóðarnauðsyn krefðist þessara hlunninda þeim til handa.

Verksmiðjurnar eru nú svo stór liður í framleiðslunni, að þær ráða orðið síldarverðinu. Ef því þannig er að þeim búið, að þær standi verr að vígi en verksmiðjur einstaklinga, verður það ekki aðeins til að rýra kjör þeirra sjómanna og útvegsmanna, sem leggja upp síld til verksmiðjanna sjálfra, heldur einnig þeirra manna, sem leggja upp síld í verksmiðjur einstaklinga.

Með l. frá síðasta þingi var nú gerð slík breyting hér á, að ríkisverksmiðjurnar standa verr að vígi um skattgreiðslur en verksmiðjur einstaklinga. Að vísu greiða einstaklingsverksmiðjur nokkurn tekju- og eignarskatt, en þó mega þær heita skattfrjálsar eða því sem næst. Þær greiða líka útsvar, en það er minna en umsetningargjald það, sem ríkisverksmiðjurnar verða að greiða af hverju máli. Skal ég nú færa sönnur á þetta.

Hjalteyrarverksmiðjan greiddi í útsvar á síðastl. ári 7000 kr. og vann úr 207000 málum, og svarar það til 3,5 aura gjalds á mál. Djúpuvíkurverksmiðjan greiddi í útsvar 8000 kr., en vann úr 136000 málum, og eru það 5,8 aurar á mál. Ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði greiddu samtals 41 þús. kr. í umsetningargjald og fasteignagjald og auk þess 37 þús. kr. í vörugjald til Siglufjarðar, eða alls 78 þús. kr. Vinnslan nam 360 þús. málum, og svarar þá þetta til nærri því 22 aura gjalds af máli, eða 16–18,5 aura hærra gjalds en einstaklingsverksmiðjur greiddu.

Sé það rétt, sem ég hygg vera, að ríkisverksmiðjurnar ráði síldarverðinu, þá er aðbúnaður þeirra af hálfu þess opinbera orðinn þannig, að ríkisverksmiðjurnar gefa verksmiðjum einstaklinga verndartoll, sem nemur 16–18,5 aurum á mál. Þetta er sú upphæð, sem segir til um það, hve miklu rekstur ríkisverksmiðjanna er gerður óhagstæðari en rekstur einkaverksmiðja. Og þetta hlýtur að verða til þess að lækka síldarverðið. Verður að telja þetta mjög óheppilegar aðgerðir um leið og verið er að gera ráðstafanir til að hjálpa útgerðinni. Þess ber líka að gæta, að verksmiðjurnar á Hjalteyri og Djúpuvík eru reistar seinna, hafa fullkomnari útbúnað, svo að þær geta unnið úr meira á sólarhring og eru ódýrari í rekstri. Þegar þetta allt kemur saman. verður það ljóst, að Alþingi getur varla annað en leiðrétt þetta misrétti, eftir því sem hægt er. Ég fer því fram á það í till. minni, að fasteignagjaldið sé niður fellt, en það nemur nú 20 þús. kr. Er þannig farið fram á það, að felldar verði niður aðeins 20 þús. kr. af um 80 þús. kr., sem verksmiðjurnar greiða nú í opinber gjöld.