25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2749)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil aðeins geta þess, að því stærri sem verksmiðjurnar verða móts við Siglufjarðarbæ, og því lengur sem þær standa, því verra verður að verja það, að hafa undantekningarákvæði frá því, að þær greiði útsvör og almenn opinber gjöld á staðnum, og því örðugra verður fyrir bæinn að ná þessum tekjum á annan hátt, ekki sízt ef það væri, sem ég hygg rétt, hvað sem hv. þm. Ísaf. segir, að innan síldarverksmiðjustj. sé andstaða gegn því, að Siglufjörður geti á annan hátt aukið sína atvinnumöguleika. Og hinsvegar er ekki hægt að neita því, að það er vernd fyrir síldarverksmiðjurnar að þurfa ekki að borga tekju- og eignarskatt, hvað svo sem öðrum fyrirtækjum líður, sem eru það illa stödd, að þau losna við að greiða hann af þeim ástæðum.