25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Ég hefi ásamt hv. þm. Borgf. og hv. þm. V.-Húnv. leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. á þann hátt, að færa það í sama horf eins og það var, þegar það var afgr. frá Nd. Þegar málið var þar til umr. síðast, færði ég nokkur rök fram, sem ég áleit réttlætingu fyrir þessari till. Ég benti þá á það, að í upphafi hefði það verið þannig, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu verið skattfrjálsar, bæði til bæjar- og sveitarfélaga, og ennfremur ekki borgað neina tekjuskatta til ríkisins. Ég benti einnig á það, hvaða ástæður voru færðar fram fyrir því að gefa síldarverksmiðjum ríkisins þessi hlunnindi umfram verksmiðjur einstakra manna. Og ég benti einnig á það, að þetta væri orðið þannig breytt, að síldarverksmiðjur ríkisins væru nú orðnar verr úti en stærstu keppinautar þeirra á Hjalteyri og Djúpuvík. Þá benti ég einnig á það, að síldarverksmiðjur ríkisins ráða síldarverðinu, þannig að ef þessum málum verður skipað á þann veg, að síldarverksmiðjur ríkisins verða ekki samkeppnisfærar við aðrar verksmiðjur, þá verður það ekki einungis til þess að lækka síldarverðið fyrir útgerðarmönnum og sjómönnum, sem leggja upp í síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði, heldur einnig myndi það þá lækka síldarverðið yfirleitt og þar með fella togarapremíuna, sem myndi koma niður á útgerðarmönnum og sjómönnum, sem leggja upp í verksmiðjur einstakra manna.

Ég færði þau rök fyrir þessu, að útsvar, sem síldarverksmiðjan á Hjalteyri hefði greitt árið sem leið, hefði verið 7000 kr. af 207000 málum, eða 3½ eyrir á mál, og verksmiðjurnar á Djúpuvík 8000 kr. útsvar af 136 þús. mála vinnslu síldar, eða um 5,8 aurar á mál. Þessar verksmiðjur þurfa ekki að greiða neitt fasteignagjald til sveitarsjóða þar, sem þær eru reknar, og þær þurfa ekki heldur að greiða neitt, sem heitir vörugjald til hafnanna, sem er mjög hátt á Siglufirði. Það, sem þessar verksmiðjur þess vegna greiða til sveitarsjóða, þar sem þær eru reknar, miðað við árið sem leið, er frá 3,5 og upp í 5,8 aurar á síldarmál. Samanborið við þau gjöld, sem ríkisverksmiðjurnar greiða, verður útkoman þannig, að umsetningargjald, sem lagt var á síldarverksmiðjur ríkisins á síðasta ári, nemur um 17 þús. kr. Fasteignagjaldið, sem lagt var eingöngu á síldarverksmiðjur ríkisins á síðasta ári, nemur rúmlega 23 þús. kr., og gjald, sem síldarverksmiðjur ríkisins greiddu vegna hafnarinnar á Siglufirði á síðasta ári, nemur rúmum 37 þús. kr., þannig að alls greiða síldarverksmiðjur ríkisins í hafnargjöld og opinber gjöld til bæjar- og hafnarsjóðs á Siglufirði um 78 þús. kr., eða 22 aura á hvert mál síldar.

Þetta þýðir það, að síldarverksmiðjur ríkisins geta þegar af þessum ástæðum ekki komizt hjá því að reikna sér meiri útgjöld en verksmiðjur einstaklinga, sem svarar frá 16 og upp í 18 aurum á hvert mál, þannig að síldarverksmiðjur ríkisins eru, einungis vegna þessara opinberu gjalda, sem þær greiða til Siglufjarðarkaupstaðar, verr settar með að borga verð fyrir síldina til útgerðarmanna og sjómanna sem þessu nemur. Gjöld, sem þær greiða til Siglufjarðarkaupstaðar, verða því einskonar verndarskattur fyrir verksmiðjur einstakra manna og félaga, sem kemur niður á útgerðarmönnum og sjómönnum. Nú skal ég fúslega játa það, að það virðist í fljótu bragði ef til vill nokkuð harkalega að farið gagnvart Siglufjarðarkaupstað, ef ætti að fara að lækka þessa tekjustofna stórlega. En á hitt ber þó að líta, að það er líka nokkuð stórt spor stigið frá því að láta síldarverksmiðjur ríkisins hafa fullkomið skattfrelsi til þess fyrirkomulags sem nú gildir, að veita Siglufjarðarbæ réttindi til þess að skattleggja þær meira heldur en verksmiðjur einstakra manna, sem reknar eru í samkeppni við síldarverksmiðjur ríkisins. Það hefir verið rætt um, að síldarverksmiðjur ríkisins nytu þeirra hlunninda umfram verksmiðjur einstakra manna, að þær væru lausar við að greiða tekju- og eiguarskatt til ríkissjóðs. Nú hefir það ekki sézt, að þessar verksmiðjur einstakra manna hafi greitt neinn tekju- og eignarskatt til ríkissjóðs undanfarandi ár, þannig að þau skatthlunnindi síldarverksmiðja ríkisins gera í raun og veru engan mismun.

Auk þess má benda á það, að síldarverksmiðjum ríkisins er með l. gert að skyldu að taka, ef útgerðarmenn óska þess, síld af þeim og vinna hana með kostnaðarverði og skila öllum hagnaði. Einnig þetta atriði, ef farið verður að taka upp það fyrirkomulag á rekstri síldarverksmiðja ríkisins, gerir þetta ákvæði um skattfrelsi til ríkissjóðs að engu.

Ég gat þess áðan, að því væri haldið fram, að það væri nokkuð harkalega að farið gagnvart bæjarsjóði Siglufjarðar að stinga upp á þessari breyt. En ég vil benda á, fyrir þá, sem vilja halda fram málstað þessa kaupstaðar, að það verður ákaflega erfitt í framtíðinni, ef hægt er að sýna fram á það með rökum, að sá verksmiðjurekstur, sem þar er rekinn, sé skattaður svo og svo mikið umfram það, sem gert er í öðrum sveitarfélögum, að það beinlínis haldi niðri síldarverðinu fyrir útgerðarmönnum og sjómönnum. Það verður því erfiðara að halda uppi atvinnurekstri í þessum bæ, sem lengra er farið í þessu efni.

Ég fyrir mitt leyti hefi gert meira í því og hefi haft ástæður til að hafa áhrif á það meira en nokkur annar að halda atvinnurekstri að Siglufjarðarbæ. Og ég tel, að ef þessari stefnu verður haldið áfram af málsvörum Siglufjarðarkaupstaðar, þá sé mín afstaða í þessu efni a. m. k. ákaflega torvelduð.

Ég gat þess, þegar þetta mál var til umr. í Nd., að um 80 skip hefðu lagt upp síld til vinnslu í síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði á undanförnum sumrum. Með óbreyttri vinnslu hjá síldarverksmiðjum ríkisins, óbreyttu verði á afurðum þeirra og öðrum óbreyttum aðstæðum verksmiðjanna, nemur sá skattur, sem síldarverksmiðjur ríkisins eru látnar greiða til Siglufjarðarkaupstaðar umfram það, sem verksmiðjur einstakra manna og félaga gera annarstaðar, eins og ég gat um áðan, frá 16–8,5 aurum á mál. Til uppjafnaðar verður allur skatturinn um 1000 kr. á skip, þar sem milli 70–80 skip hafa lagt upp hjá síldarverksmiðjum ríkisins á síðasta sumri.

Nú hefir hæstv. Alþ. séð ástæðu til að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að létta undir með útgerðinni, og við vitum það vel, að heima fyrir er ástand þessarar útgerðar þannig, að bæjarfélög, þar sem þessi skip eiga heima, hafa öll séð ástæðu til þess að gera ýmsar ráðstafanir til að létta af þeim sköttum heima í héraði. Mér er kunnugt um það, að í allflestum bæjar- og sveitarfélögum hefir verið ákveðið að greiða ekki vörugjald af kolum og salti, sem keypt er til útgerðarinnar. Ennfremur er í flestum bæjar- og sveitarfélögum tekin upp sú regla, að leggja ekki — eða sem minnst — aukaútsvar á þessa útgerð, með tilliti til þess, að gera henni kleift að halda áfram.

Þegar nú bæði hæstv. Alþ. og heimasveitir útgerðarfyrirtækja gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að létta byrðum af útgerðinni, þá virðist ekki til mikils mælzt, þótt sá staður, sem mest hlunnindi hefir af atvinnurekstri síldarútgerðarinnar, gerði eitthvað í þessu efni líka.

Ég gat þess, að sá skattur, sem síldarverksmiðjur ríkisins greiddu til Siglufjarðarbæjar, væri í gegnum þessi þrennskonar gjöld um 1000 kr. til uppjafnaðar á skip. Þó er vert að taka það fram, að það fer vitanlega eftir afla skipanna. Þetta yrði um 22 aurar á mál.

Mörg skip, sem leggja upp síld hjá síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, hafa ekki fiskað meira en 2–3 þús. mál, og sum þeirra fyrir neðan það, þannig að skatturinn er miklu hærri á þau skip, sem skila meiru en meðalafla. Á þau skip, sem ég veiti forstöðu, mun skatturinn nema um 500 kr. á ári á hvert skip.

Ef maður gerði ráð fyrir því, að aflinn skiptist til helminga á milli útgerðarmanna og sjómanna, nemur skatturinn sem svarar 50 kr. á hlut hvers einasta sjómanns. Sú lækkun, sem farið er fram á með þessari breyt., sem við flytjum þremenningarnir við þetta frv., myndi nema rúmum 20000 kr. á ári frá því, sem gildir nú í þeirri reglugerð, sem staðfest hefir verið af atvinnumálaráðuneytinu um fasteignaskatt á Siglufirði, eða um 250 kr. á skip. Það er þess vegna ekki farið fram á með þessari brtt., að skattlækkunin nemi meiru en sem svarar ¼ þess, sem skattur þessi nemur til uppjafnaðar á skip eins og nú er, og samt yrði lágmarksskatturinn, sem síldarverksmiðjur ríkisins eru látnar greiða, langt fram yfir það, sem keppinautar þeirra á öðrum stöðum eiga við að búa.

Ég sé ekki ástæðu til að rökræða þetta frekar að sinni, en ég vildi alvarlega skjóta því fram til þeirra, sem sérstaklega bera hag Siglufjarðarkaupstaðar fyrir brjósti, að það er ákaflega erfitt fyrir mig að halda áfram að halda atvinnu að Siglufjarðabæ, ef svo á að fara fram, sem hingað til hefir verið, að útgerðin og sjómennirnir, sem leggja þar upp, séu skattaðir á Siglufirði umfram það, sem gert er í öðrum kaupstöðum.