25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Það er stundum sagt ljótt um pólitík. Ég held, að hreppapólitíkin sé sú ógeðslegasta. Hún hefir komið fram átakanlega í þessu máli Siglufjarðar hér á Alþingi.

Hv. 10. landsk. var með ýmsar fyrirspurnir til mín um ýmis atriði, sem hefðu gerzt í stjórn síldarverksmiðjanna síðastl. sumar. Hann spurði mig að því, hvort formaður síldarverksmiðjanna hefði fengið 50 aura fyrir hvert síldartonn í afgreiðslulaun fyrir skip, sem hann hefði afgr., eða 5 aura fyrir hvern síldarmjölspoka. Hann spurði mig um leiguna á Húsavíkurverksmiðjunni og rekstur Sólbakkaverksmiðjunnar og eitthvað fleira. Ég skil ekki, hvers vegna þessi hv. þm. er að beina þessum fyrirspurnum til mín, því að hann var varamaður í stjórn verksmiðjanna fyrir mína hönd frá því í apríl og þangað til síðast í ágúst, m. ö. o. allt rekstrartímabilið síðastl. sumar. Hann getur því bezt svarað sjálfur spurningum um, hvað hafi gerzt í stjórn verksmiðjanna þennan tíma. Annars vil ég taka fram í þessu sambandi, að frá því ég kom í verksmiðjustjórnina, hefi ég unnið að því, að verksmiðjurnar sættu sem ódýrastri fragt fyrir síldarmjölið. Þetta hefir verið reynt í tíð núv. verksmiðjustj., og var byrjað á því áður en ég kom í stj., og ég tel, að árangurinn af þeirri starfsemi hafi orðið sá, að meðaltalsfragtin hafi lækkað um 4 sh. tonnið. Ég held því, að engin ástæða sé til að kasta hnútum að verksmiðjustj. út af þessu. Annars er bezt fyrir þennan hv. þm. að spyrja sjálfan sig um það, sem gerzt hefir í stj. frá því í apríl. Ef eitthvað hefir gerzt þar, sem hann telur, að þurfi að átelja, þá finnst mér hann hafa brugðizt skyldu sinni, að láta yfirboðara sína ekki vita af því, ef ágreiningur hefir orðið í verksmiðjustj.

Annars skrifa ég mikið af þeim vanstillingarorðum, sem hann sagði, á reikning hreppapólitíkurinnar, sem mér virðist ráða ákaflega miklu um afstöðu hans og ýmissa annara hv. þm. til þessara mála, a. m. k. þeirra, sem kjörfylgi eiga að sækja í Eyjafjarðarsýslu.

Að öðru leyti vil ég segja við hv. 10. landsk., að ég skil ekki, hvernig hann hefir farið með þær tölur, sem ég hefi lesið hér upp. Annaðhvort hefi ég ekki lesið þær nógu greinilega eða hann hefir ekki tekið nógu vel eftir, eða í 3. lagi, að hann hefir setið heima og búið sig þar undir það að svara röksemdum mínum og svarar þeim þess vegna út í hött.

Ég held, að það verði ekki hrakið, að það umsetningargjald, sem ríkisverksmiðjurnar greiddu síðastl. ár á Siglufirði, var rúmlega 16 þús. kr. Ég held, að það verði ekki heldur hrakið, að fasteignagjaldið var rúmlega 23 þús. kr., eða samtals þessar tvær upphæðir 40 þús. kr. Ég ætla að biðja hv. 10. landsk. að neita þessu, ef hann treystir sér til þess. Þá vil ég geta þess, að lýsi og síldarmjöl útflutt frá verksmiðjunum var síðasta ár 17 þús. smálestir, kol innflutt voru 5 þús. smálestir, salt 18 þús. smálestir, eða samtals rúmlega 23 þús. tonn. Vörugjaldið af þessu var kr. 1.50 á smálest, eða samtals 38 þús. kr. Ef við leggjum það við hin önnur gjöld, sem voru 40 þús. kr., þá hygg ég, að komi 78 þús. kr. Hv. þm. vill halda fram, að ég hafi talið þarna með vatnsskatt, sem verksmiðjurnar greiði, og rafmagn og hitt og þetta fleira, en ég mótmæli því sem algerlega röngu. Þessi staðhæfing hv. 10. landsk. getur ekki byggzt á neinu öðru en hreinum misskilningi. Ég hefi ekki tekið í þessari upptalningu á gjöldunum til bæjarsjóðs neitt annað en það, sem er greitt í fyrsta lagi samkv. hafnarlögum Siglufjarðar, vörugjald, í öðru lagi samkv. reglugerð fasteignaskatts, í þriðja lagi samkv. ákvæðum Alþingis umsetningargjald, — ekkert annað. Ég þori ekki að fullyrða nema þetta geti munað nokkrum hundruðum króna, en það munar aldrei meiru.

Þegar það er athugað, að hv. 10. landsk. taldi upp 40 þús. kr. af ýmiskonar gjöldum, sem hann segir, að ég hafi tekið með, þó að mér hafi ekki komið það til hugar, þá er bersýnilegt, að hans röksemdafærsla er öll á röngum grundvelli. Ég harma það mjög, að slíkur málflutningur skuli hafa verið notaður hér í þessu máli, því að sannarlega verður það ekki til að bæta samkomulagið um málið, að vera með öfgar og rangfærslur í þessu efni.

Hv. 10. landsk. vildi gera lítið úr því, að þetta mundi bæta hag útgerðarinnar, þó að það yrði samþ. Ég veit, að það er allt of skammt farið í þessu efni, en hitt er það, að þau hlutaskipti, sem hv. 10. landsk. segir, að séu á síldveiðiskipunum, eru ekki rétt. Ég vil telja, að á mótorbátum og línuveiðurum gangi 50% til skipverja. Hv. 10. landsk. segir, að það sé ekki nema 37% eða 39%, sem gangi til háseta, en það eru fleiri á skipunum en hásetar. Hann gleymir, að þar eru líka skipstjórar, stýrimenn, vélamenn og matsveinar, sem hafa aukaþóknun, sem er það há, að skiptingin er þessi, 50% til útgerðarinnar og 50% til skipverja á mótorbátum og línuveiðiskipum.

Upphæðin, sem þarna er um að ræða, er 20 þús. kr. sem skiptist milli 80 skipa, og ég held, að ekki þurfi mikinn reikningsmann til að sjá, að þótt þessi upphæð sé lítil, þá er hún meiri en 2 kr. á hvern háseta. Ef hv. 10. landsk. vill fara út í að jafna gjöldunum þannig, að útgerðin verði ekki verr úti á Siglufirði en annarstaðar, af því að honum þyki útgerðin annars bera of lítið úr býtum, þá gætum við komizt að samkomulagi um að gera þetta dálítið víðtækara, þó að ég hinsvegar álíti ekki rétt að búa að öðru leyti verr að Siglufjarðarkaupstað.

Ég held, að það sé þá ekki ástæða fyrir mig að fara frekar út í ræðu hv. 10. landsk. Bendingar hans um það, að við hv. þm. Borgf. höfum viljað koma hvor öðrum fyrir á vissum stöðum til geymslu á síðasta ári, eru þessu máli alveg óviðkomandi, og ég fyrir mitt leyti vil óska þess, að þeir menn, sem halda fram málstað Siglufjarðar, hagi sínum málflutningi þannig, að ekki þurfi að óska eftir að koma þeim fyrir í neina sérstaka geymslu, heldur megi þeir halda áfram að ganga lausir og sinna pólitískum störfum og öðrum störfum í þjóðfélaginu, eins og þeir hafa gert hingað til.