25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Mér skildist á hæstv. atvmrh., þegar hann var að tala um reksturinn á Húsavík og Sólbakka, að hann teldi, að þar væri um réttar framkvæmdir að ræða af hendi verksmiðjustjórnar. En það mætti minnast á það, sem áður hefir verið hér til umr. og hv. þm. Borgf., sem er 2. flm. till., hefir gert að umtalsefni hér í hv. d. fyrir ári síðan, en það er síldarþróin, sem upplýst er, að kostaði um 300 þús. kr. Þegar hún var byggð, þá var hv. þm. Ísaf. formaður verksmiðjustj., svo hann stendur illa að vígi, þegar hann er að færa það fram sem aðalrök í þessu máli, að hér sé um eyðslu á fé sjómanna að ræða. Hann hlýtur því að flytja till. af öðrum ástæðum. Ég hélt líka, að hæstv. atvmrh. hefði svo oft lent í deilum við hv. þm. Ísaf. og deilt á hann með réttu fyrir óvandaðan málflutning, að hann ætti að geta slegið því föstu fyrirfram, að hv. þm. Ísaf. færi hér ekki með rétt mál. Ég hefi fyrir mitt leyti aldrei verið í vafa um, án þess að hafa sérstaklega rannsakað málið, að það væri hv. þm. Ísaf., sem færi með rangt mál, þegar þessir tveir menn hafa átt í orðasennu. Ég álít, að í þessari deilu þeirra hv. 10. landsk. og hv. þm. Ísaf. sé það einnig svo, að hv. þm. Ísaf. hafi rangt fyrir sér.

Í sambandi við þetta vil ég minna hv. þm. á þá forsögu, sem liggur til grundvallar fyrir þessum fasteignaskatti á Siglufirði. Þegar svo var komið, að tekjuaflanir bæjar- og sveitarsjóða voru orðnar mjög óvissar og fóru alltaf versnandi ár frá ári, þá var horfið að því ráði að skipa mþn. til að gera till. í því máli og reyna að finna leiðir til þess, að bæjar- og sveitarsjóðir gætu fengið nægilegar tekjur til að standast þau útgjöld, sem þeir verða að standa undir. Árangurinn af starfi mþn. var sá, að endanlegt samkomulag varð milli allra flokka um að afgreiða málið eins og gert var með l. frá 1936. Einn liðurinn í þeirri löggjöf var heimild til að leggja á eignir, þar á meðal verksmiðjur ríkisins, og er þetta það gjald, sem lagt hefir verið á á Siglufirði.

Ég verð því að segja, að það er lítið traust í þeim samþykktum, sem þingið gerir, ef svo á að reynast, að bæirnir geti ekki öruggir byggt upp sínar fjárhagsáætlanir með tilliti til þeirra tekjustofna, sem þeim voru gefnir með þessum l. Bæjarstjórn Siglufjarðar hefir gert ráð fyrir þessum tekjustofni í fjárhagsáætlun bæjarins, svo það er óverjandi að taka þennan tekjustofn frá bæjarsjóði, án þess að láta hann hafa nokkuð í staðinn. Ef hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. hefðu komið með annan tekjustofn í staðinn, sem þessari upphæð næmi, þá var ekkert að segja. Mér skilst, að þegar samkomulag hefir orðið milli flokka um svona atriði, þá megi ekki rjúfa það samkomulag með því að taka burtu tekjustofn slíkan sem þennan, nema annar komi í staðinn, þar sem ekki hefir verið bent á, að afkoma Siglufjarðar væri það betri nú en hún var 1936.

Þegar þessir hv. þm. eru að tala um, að Siglufjörður hafi svo miklar tekjur af rekstri síldarverksmiðjanna, þá vil ég benda þeim á, að afkoma bæjarins var í þessum efnum miklu betri áður en síldarverksmiðjur ríkisins fóru að starfa þar. Þegar síldarverksmiðjur Goos og dr. Paul's störfuðu þar, þá greiddu eigendur þeirra 30–50 þús. kr. á ári í útsvar. En þær útsvarstekjur, sem Siglufjörður hefir af ríkisverksmiðjunum, eru um 15 þús. kr. á ári, og ef fasteignaskattinum er bætt við, en hann er 12600 kr., þá eru þarna tæpar 28 þús. kr., sem verksmiðjurnar greiða sem beint gjald í bæjarsjóð Siglufjarðar, eða nær helmingi minni upphæð en greitt var í útsvar af verksmiðjum Goos og dr. Paul's.

Það var borið fram frv. um að heimila að leggja á mann, sem hefði aðalatvinnutekjur sínar á Siglufirði, þó hann væri ekki heimilisfastur þar, en það frv. var fellt. En ég vil upplýsa, að það fyrirkomulag, sem er á þessum atvinnurekstri á Siglufirði, er þannig, að þeir, sem eiga bryggjurnar og söltunarplássin á Siglufirði, en það eru aðallega menn, sem eru þar búsettir, leigja þetta vanalega út fyrir lágt gjald þeim, sem búsettir eru utan Siglufjarðar, svo ekki er hægt samkv. útsvarsl. að leggja á þá, sem hafa aðalatvinnureksturinn á þessum stöðvum. Ef miðað er við framleiðsluna á Siglufirði, þá mun útsvarsálagningin þar ekki ná til nema 2 tunna af hverjum 5, sem saltaðar eru þar. Útsvarsl. eru því þannig úr garði gerð, að Siglufjörður verður alveg sérstaklega illa úti hvað það snertir að geta lagt á þá menn, sem hafa mesta starfrækslu á Siglufirði.

Afleiðingin af þessu er sú, að útsvarsálagningin á Siglfirðingum sjálfum er hlutfallslega há, eða um 75% hærri en í Reykjavík. Orsökin liggur í því, að þau fyrirtæki og þeir einstaklingar og framleiðendur, sem á Siglufirði starfa, eru ekki útsvarsskyldir nema að litlu leyti.

Mig skiptir það engu, þó að hv. þm. Ísaf. sé að tala um, að hreppapólitík ráði afstöðu minni og hv. 10. landsk., og ég get ekki annað en brosað, þegar ég heyri það frá munni þeirra manna, sem standa að þessari till. Þeir ættu sízt að tala um hreppapólitík.

Hv. 10. landsk. hefir sýnt fram á, að hafnargjöld á Siglufirði eru sízt hærri en annarstaðar, og mér er sagt, að vatn sé ódýrara þar en í öðrum kaupstöðum. Hann hefir líka bent á, að Siglufjörður hefir greitt um helming kostnaðar við öldubrjót, sem vitanlega er ekkert annað en beinn útlagður kostnaður, því hann gefur engar tekjur af sér, en hann var byggður aðallega til þess að verja eignir síldarverksmiðja ríkisins.

Það er því síður en svo, að afstöðu minni ráði nokkuð annað en það, að ég vil styðja að því, að bærinn fái þær tekjur, sem sanngjarnt er, og koma í veg fyrir, að Alþ. setji löggjöf, sem brýtur í bág við það samkomulag, sem gert var á Alþ., þegar l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga voru sett 1936.

Ég get staðfest það, að bæjarstjórn Siglufjarðar mun ekki leggja hærra gjald á en gert er ráð fyrir í frv. eins og það kemur frá Ed. Ég vil líka lýsa því yfir, að hvernig sem fer um þetta mál, þá mun ekki verða lagt á hærra gjald en gert er ráð fyrir í frv. eins og það kemur frá Ed. Það er því óhætt fyrir þá, sem sætta sig við frv. eins og það kemur frá Ed., að greiða atkv. móti því, að frv. verði samþ., þó heimild sé þá fyrir hærri álagningu, því hún mun ekki verða notuð. Ég vil þess vegna vænta, að ef till. hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. verður ekki felld, þá verði frv. fellt.