25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Ég mun ekki fara út í einstakar ræður. Það, sem hv. 10. landsk. hefir sagt, hefir ekki verið hrakið af öðrum. Ræða hv. þm. Borgf. var meira hávaði en rök. Honum stendur það aðallega fyrir hugskotssjónum. að það sé svo mikill velgerningur við plássið að koma þar upp atvinnufyrirtæki, að það eigi að vera skattfrjálst. Þetta er álíka og þegar Hellyer var að sækja um útsvarsfrelsi í Hafnarfirði. En einhverjum hv. þm. mun kannske vera ljóst, hvert leiðir, ef farið er langt inn á þessar brautir, og það er þegar allt of mikið af slíku á okkar landi. Við þurfum ekki annað en athuga, hvernig væri ástatt á þeim stöðum, þar sem síldarverksmiðjurnar eru, ef þar væru einkafyrirtæki, og hvað þau mundu greiða.

Hæstv. atvmrh. sagði, að hann væri með frv. eins og það kemur frá Ed., en þó væri hann með því, ef brtt. væri samþ. Ég skil ekki þá afstöðu. Hæstv. ráðh. segir, að þó að l. yrðu samþ. með brtt. hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf., þá sé hægt að semja um þetta, „hvað sem öllum lögum líði“. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að um það yrðu neinir samningar, enda mundi síldarbræðslustjórnin segja, að sig brysti heimild til þess. Ef brtt. yrði samþ., ætti atvmrh. að vera á móti frv.

Ég mundi gjarnan vilja taka nokkur fleiri dæmi um það, hvernig verið er á verði fyrir hagsmuni sjávarútvegsins, en ég vil ekki lengja umr.